Lyfjastofnun vill minna á að ekki er tekið við ávísunum undanþágulyfja á pappírsformi lengur, heldur skulu allar umsóknir berast rafrænt. Sama gildir fyrir beiðnir um notkun undanþágulyfja. Breyting þessi tók gildi 1. apríl sl. Margar leiðir eru færar og hér verða þær helstu útskýrðar.
1) Fyrir lyf sem eru í undanþágulyfjaverðskrá:
Þann 23. mars sl. gerði Embætti landlæknis breytingar á sínum kerfum sem gera öllum starfandi læknum kleift að ávísa rafrænt undanþágulyfjum sem eru í undanþágulyfjaverðskrá. Þá var opnað fyrir rafrænar lyfjaávísanir allra lækna í lyfjagagnagrunni embættisins. Þar að auki geta læknar notað ávísunarkerfi sín áfram í sama tilgangi, bjóði þau upp á það.
Heilbrigðisstofnanir, tannlæknar og dýralæknar geta einnig notað lyfjagagnagrunninn til að sækja um notkun undanþágulyfja í starfi.
Læknar á Íslandi hafa verið upplýstir um þessa úrlausn og útfærslu af Embætti landlæknis. Undanþágulyfjaverðskrá er að finna á vef lyfjagreiðslunefndar.
2) Fyrir lyf sem ekki eru í undanþágulyfjaverðskrá:
Heilbrigðisstofnanir, tannlæknar og dýralæknar geta sótt um notkun undanþágulyfja sem ekki eru í lyfjaverðskrá til nota í starfi. Umsóknareyðublað til þess má finna á „Mínum síðum” Lyfjastofnunar með rafrænni auðkenningu læknis. Þar skal farið í „Skrá umsókn” → „Annað” → „Umsókn fyrir lyf án markaðsleyfis”.
Mat Lyfjastofnunar
Lyfjastofnun samþykkir eða hafnar lyfjaávísunum og beiðnum um notkun undanþágulyfja og fær umsækjandi niðurstöðuna senda með tölvupósti. Sé umsókn hafnað fylgir rökstuðningur Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun mælir með að umsækjendur rökstyðji beiðnir og ávísanir undanþágulyfja vandlega, því það eykur líkur á samþykki.