Lyfjastofnun kallar eftir upplýsingum frá umboðsaðilum, heildsölum eða hverjum þeim sem hyggst flytja út hlífðarfatnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk næstu vikur, eða til 25. apríl nk. Þetta er hluti af viðbragðsáætlun stofnunarinnar vegna heimsfaraldurs COVID-19 og byggir á reglum sem heilbrigðisráðherra setti 2. apríl sl.
Reglurnar voru settar til að uppfylla skilyrði tveggja reglugerða framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá í mars, um að gera útflutning tiltekinna vara háðan leyfi. Sá hlífðarfatnaður sem reglurnar ná til er tilgreindur í fylgiskjali með þeim.
Framkvæmd
Beiðni um útflutning skal á þessu tímabili berast til Lyfjastofnunar með erindi á netfangið [email protected]. Berist tollinum eða útflutningsaðilum beiðni um útflutning á hlífðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk, án þess að fyrir liggi samþykki Lyfjastofnunar, ber þeim aðilum að tilkynna það stofnuninni án tafar.
Reglur heilbrigðisráðherra hafa þegar öðlast gildi og gilda til 25. apríl sem fyrr segir. Verði umrætt tímabil framlengt mun slík ákvörðun verða kynnt með góðum fyrirvara.