Í umboði skal koma fram nafn og kennitala umboðsmanns. Meginreglan er sú að umboð til afhendingar lyfja fari í gegnum Heilsuveru, þ.e. sé veitt með rafrænum hætti. Rafræn lausn þar sem einstaklingar skrá sig inn með rafrænum skilríkjum er örugg leið til að tryggja réttmæti umboða og þar með örugga afhendingu lyfja til umboðsmanna. Jafnframt veitir rafræna lausnin umfram þá skriflegu, betri stjórn á veittu umboð einstaklings, ef til þess kemur að breyta þurfi umboði eða ógilda það.
Í undantekningartilvikum, þar sem ekki er hægt að veita rafrænt umboð, má útbúa skriflegt umboð vegna afhendingar lyfja. Skriflegt umboð þarf að vera vottað af tveimur aðilum til að tryggja réttmæti þess. Nöfn og kennitölur allra aðila skulu koma fram.