Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur hafið mat á umsókn fyrir COVID-19 bóluefnið Comirnaty (Pfizer/BioNTech), sem lýtur að því hvort nota megi það hjá einstaklingum 12-15 ára. Núna er það samþykkt fyrir 16 ára og eldri.
Sérfræðingarnefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) mun beita flýtimati við rýni þeirra gagna sem lyfjafyrirtækið hefur sent inn. Meðal gagnanna eru niðurstöður stórrar yfirstandandi klínískrar rannsóknar sem ungmenni frá 12 ára aldri taka þátt í. Mun mat CHMP leiða í ljós hvort nefndin muni mæla með útvíkkaðri notkun bóluefnisins. Niðurstöðu er að vænta í júní nema CHMP telji frekari gagna þörf til að komast að henni. Lyfjastofnun mun miðla um niðurstöðuna þegar hún liggur fyrir.
Comirnaty fékk markaðsleyfi á Íslandi í lok desember 2020. Frekari upplýsingar um bóluefnið má finna á sérstakri síðu á vef okkar.