Listi yfir nauðsynleg lyf nú aðgengilegur í sérlyfjaskrá

Listinn hefur að geyma heiti lyfja sem fylgjast þarf sérstaklega með hvað birgðastöðu varðar, þar sem skortur þeirra gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér

Nú má nálgast lista yfir nauðsynleg lyf í sérlyfjaskrá. Það er gert með því að smella á hnapp með þar til gerðri merkingu á forsíðu sérlyfjaskrár.

Þessar upplýsingar eru einnig tilgreindar á lyfjaspjaldi hvers lyfs sem á listanum er.

Íslenskur listi yfir nauðsynleg lyf

Í október 2022 birti Lyfjastofnun lista yfir nauðsynleg lyf ætluð mönnum eins og skylt er skv. 29. gr lyfjalalga. Í lögunum er annars vegar kveðið á um að markaðsleyfishafa beri skylda til að eiga tiltækar nægar birgðir nauðsynlegra lyfja sem hafa verið markaðssett, hins vegar um það hlutverk Lyfjastofnunar að skilgreina í samráði við þá sem málið varðar, hvaða lyf teljist nauðsynleg.

Dæmi um lyfjaflokka (ATC) á listanum yfir nauðsynleg lyf eru hjarta- og segavarnarlyf, öndunarfæralyf, sýklalyf, lyf við sykursýki og lyf gegn ofnæmi. Einnig geðlyf, svæfingarlyf, æxlishemjandi lyf auk innrennslislyfja á borð við blóðskilunar- og næringarvökva.

Listi EMA yfir nauðsynleg lyf

Í desember 2023 birti Lyfjastofnun Evrópu (EMA) sambærilegan lista sem unninn var í samvinnu aðildarstofnananna, en Lyfjastofnun er þar á meðal. Listi EMA heitir Union list of critical medicines (ULCM) og er honum ætlað að vera viðmiðun og til stuðnings aðildarstofnunum. Sambærilegir listar einstakra ríkja geta þó að einhverju leyti verið frábrugðnir ULCM, allt eftir stöðu mála á hverjum stað.

Við samsetningu ULCM var áhætta metin, þ.e. hvaða afleiðingar skortur myndi hafa á einstaklinga og samfélög út frá tveimur meginþáttum: alvarleika sjúkdómsins sem lyfinu er ætlað að meðhöndla, og framboði af annarri lyfjameðferð við sjúkdómnum. Auk þess var horft til þess hve mörg EES-lönd höfðu lyfið á sínum lista yfir nauðsynleg lyf.

Íslenski listinn nýlega uppfærður

Á síðustu vikum og mánuðum hefur Lyfjastofnun unnið að uppfærslu á íslenska listanum yfir nauðsynleg lyf, meðal annars til samræmis við uppfærslu ULCM frá í desember sl. Á lista Lyfjastofnunar er nú að finna lyf í 278 mismunandi ATC flokum, alls 962 lyf. Uppfærsla á listanum var unnin í samráði við Landspítalann, Embætti landlæknis og heildsölur. Auk þess voru samsvarandi listar á hinum Norðurlöndunum hafðir til hliðsjónar, sem og öryggisbirgðalisti sóttvarnalæknis, í samræmi við viðauka I í reglugerð um sóttvarnaráðstafanir.

Síðast uppfært: 16. október 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat