Ný lyf á markað 1. janúar 2018

Ný lyf sem komu á markað 1.janúar 2018.

Atorvastatin Xiromed, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 40 mg af atorvastatíni. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til meðferðar við kólesterólhækkun og sem fyrirbyggjandi meðferð gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Fenoxymetylpenicillin EQL Pharma, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 800 mg eða 1 g af phenoxymethylpenicillin kalíum. Lyfið er ætlað til meðferðar við sýkingum sem talið er líklegt að séu næmar fyrir phenoxymethylpenicillini. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Flecainid STADA, tafla. Hver tafla inniheldur 100 mg af flecainid asetati. Lyfið er notað við mismunandi tegundum hjartsláttartruflana. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í hjartasjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Granpidam, filmuhúðuð tafla. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 20 mg síldenafíl (sem sítrat). Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til meðferðar við lungnaslagæðaháþrýstingi. Lyfið er sjúkrahúslyf og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í hjartasjúkdómum og lungnasjúkdómum og sérfræðinga í hjarta- og lungnasjúkdómum barna. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Harpatinum, mjúkt hylki. Hvert hylki inniheldur 225 mg af útdrætti (sem þurr útdráttur) úr Harpagophytum procumbens DC. og eða Harpagophytum zeyheri Decne. (Djöflakló), radix (jafngildir 990-1125 mg af þurrkaðri rót djöflaklóar). Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er jurtalyf sem hefð er fyrir og er notað til að draga úr vægum gigtarverkjum og til að draga úr vægum meltingartruflunum eins og uppþembu, vindgangi og tímabundnu lystarleysi. Tilgreinda ábendingin fyrir notkun þess er eingöngu byggð á langri sögu um notkun lyfsins. Lyfið er lausasölulyf.

Ibandronic acid WH 50 mg, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 50 mg af íbandrónsýru (sem natríum einhýdrat). Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til varnar beinkvillum hjá fullorðnum (brotum sem stafa af sjúkdómum, fylgikvillum í beinum þegar þörf er á geislameðferð eða skurðaðgerð) sjúklingum með brjóstakrabbamein og meinvörp í beinum. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Ibandronic acid WH 150 mg, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 150 mg af íbandrónsýru (sem natríum einhýdrat). Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er ætlað til meðferðar við beinþynningu hjá konum eftir tíðahvörf sem eru í aukinni hættu á beinbrotum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Malastad, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 250 mg af atovaquoni og 100 mg af proguanil hýdróklóríði. Lyfið er ætlað til fyrirbyggjandi meðferðar við Plasmodium falciparum malaríu hjá fullorðnum og börnum yfir 40 kg að þyngd og til meðferðar við bráðri Plasmodium falciparum malaríu án fylgikvilla, hjá fullorðnum og börnum 11 kg eða þyngri. Lyfið er lyfseðilsskylt.

 

Rapiscan, stungulyf, lausn. Hvert 5 ml hettuglas inniheldur 400 míkrógrömm af regadenoson (80 míkrogrömm/ml). Lyfið er sértækt kransæðavíkkandi lyf sem nota skal sem lyfjafræðilegt álagsefni við gegnflæðimyndun á hjartavöðva með geislavirkum efnum hjá fullorðnum sjúklingum sem ekki geta lokið fullnægjandi álagsprófi. Lyfið er sjúkrahúslyf og er ávísun lyfsins bundin sérfræðingum í hjartasjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Tadalafil Mylan, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 10 mg eða 20 mg tadalafil. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Lyfið er notað til meðferðar við ristruflunum hjá fullorðnum körlum. Tadalafil Mylan er ekki ætlað konum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Tadalafil Sandoz, filmuhúðuð tafla. Hver tafla inniheldur 5, 10 mg eða 20 mg af tadalafil. Hjálparefni með þekkta verkun er laktósi. Tadalafil Sandoz 5 mg, 10 mg og 20 er notað til meðferðar við ristruflunum hjá fullorðnum körlum. Tadalafil Sandoz 5 mg er einnig notað til meðferðar við merkjum og einkennum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli hjá fullorðnum körlum. Tadalafil Sandoz 20 mg er ætlað að bæta áreynslugetu hjá fullorðnum sjúklingum með lungnaslagæðaháþrýsting. Lyfið er lyfseðilsskylt.   

Tecentriq, innrennslisþykkni, lausn. Hvert hettuglas með 20 ml af þykkni inniheldur 1.200 mg af atezolizumabi. Lyfið er ætlað til einlyfjameðferðar við ákveðnum tegundum þvagfæraþekju- og lungnakrabbameins. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt.

XGEVA, stungulyf, lausn. Hvert hettuglas inniheldur 120 mg af denosumabi í 1,7 ml af lausn (70 mg/ml). Lyfið er notað fyrirbyggjandi við einkennum frá beinum (sjúkleg beinbrot, geislun beina, samfall hryggjarliða eða beinaskurðaðgerð) hjá fullorðnum með meinvörp í beinum frá föstu æxli. Lyfið er einnig notað í meðferð hjá fullorðnum og unglingum með þroskuð bein með risafrumuæxli í beinum sem eru ekki skurðtæk eða þegar brottnám með skurðaðgerð er líklegt að valda alvarlegu sjúkdómsástandi. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er sjúkrahúslyf og er ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum og blóðsjúkdómum. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 10. janúar 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat