Nýtt frá PRAC – júní 2019

Á vegum Lyfjastofnunar
Evrópu (EMA) er hafin vinna við endurmat lyfja sem innihalda virka efnið
leuprorelin. Þetta á aðeins við um forðalyf með leuprorelin, ekki þau sem gefin eru með sprautu daglega.

Ástæða
Ástæða endurmatsins eru vandamál
sem komið hafa upp þegar forðalyfinu er komið fyrir undir húð eða í vöðva. Lyfjaformin
sem notast er við eru meðal annars ígræði og duft og leysar til innstungu. Ferlið
við lyfjagjöfina samanstendur í mörgum
tilvikum af töluvert flóknum skrefum áður en að innstungu kemur. Í þessu ferli
hafa orðið mistök sem t.d. hafa leitt til leka frá sprautu eða vandkvæða við að
koma ígræðinu fyrir.

Leuprorelin forðalyf verka
þannig að efnið, sem dælt hefur verið á sinn stað, seytlar út í líkamann á
einum og upp í sex mánuði, mismundandi eftir því um hvaða leuprorelin lyf er að
ræða. Þau mistök sem orðið hafa við inndælingu hafa leitt til þess að
sjúklingurinn fær ekki þann skammt af lyfinu sem hann þarf á að halda.

Hvers konar lyf ?
Lyf sem innihalda leuprorelin eru notuð til að meðhöndla krabbamein í
blöðruhálskirtli, brjóstakrabbamein, og ýmsa sjúkdóma sem herja á kvenlíffæri;
nefna má vöðvaæxli í legi, og legslímuflakk.

Eitt lyf sem inniheldur
leuprorelin er á markaði á Íslandi, Eligard. Það er notað í meðferð við hormónaháðu
krabbameini í blöðruhálskirtli og er til í þrenns konar styrkleika.

PRAC annast endurmatið
Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, PRAC, annast
endurmatið og mun koma með tillögur til úrbóta. Þar sem leuprorelin lyf hljóta
markaðsleyfi í hverju landi fyrir sig munu tillögur PRAC verða sendar CMDh.
CMDh er samhæfingarhópur sem fjallar einkum um álitamál vegna markaðsleyfa sem
veitt eru með gagnkvæmri viðurkenningu, og vinnur að því að sams konar
öryggisviðmið gildi alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Heilbrigðisstarfsmenn eru
hvattir til að fylgja leiðbeiningum af nákvæmni meðan á endurmatinu stendur.
Þeir sjúklingar sem áhyggjur hafa ættu að tala við lækni, helst þann sem
ávísaði lyfinu.

Frétt EMA um PRAC fund í júní

Dagskrá PRAC fundar í júní

Síðast uppfært: 18. júní 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat