Óskað eftir fulltrúum hagsmunahópa í nefnd og stjórn EMA

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur óskað eftir umsóknum frá utanaðkomandi aðilum til að taka þátt í starfi Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) á tveimur sviðum. 

Annars vegar er um að ræða stjórn EMA sem er ábyrg fyrir skipulagi og fjármálum stofnunarinnar. Leitað er að tveimur fulltrúum sjúklingasamtaka, einum frá félögum lækna, og einum úr hópi dýralækna. Viðkomandi verða tilnefndir til þriggja ára frá og með 15. júní 2019.

Hins vegar er um að ræða sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC), sem metur og sinnir eftirliti í því sem lýtur að lyfjaöryggi. Þar er óskað eftir einum fulltrúa frá sjúklingasamtökum og einum til vara, og einum fulltrúa úr hópi heilbrigðisstarfsmanna og einum til vara. Viðkomandi verða tilnefndir frá og með 1. mars 2019.

Tilgangurinn með því að kalla fleiri að borðinu er að tryggja að sjónarmið sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks komist til skila í umfjöllun og ákvarðanatöku á þessum sviðum í starfi EMA.

Óskað er eftir að áhugasamir sendi inn umsókn eigi síðar en 8. júní 2018. Á þetta bæði við um fulltrúa í stjórn EMA og PRAC, og í báðum tilvikum verður listi umsækjenda borinn undir Evrópuþingið áður en ákvörðun verður tekin.

Nánari upplýsingar er að finna í frétt á vef EMA

Síðast uppfært: 2. maí 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat