Plaquenil – Ráðstafanir til að koma í veg fyrir skort

Til að tryggja sem best öryggi sjúklinga og koma í veg fyrir skort á lyfinu Plaquenil hafa Lyfjastofnun, Embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands og lyfjagreiðslunefnd ákveðið að grípa til eftirfarandi aðgerða:

 • Greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í Plaquenil hefur verið breytt tímabundið frá og með 24. mars 2020. Lyfið er nú án almennrar greiðsluþátttöku en Sjúkratryggingar Íslands munu í dag gefa út lyfjaskírteini fyrir þá sem eru í langtímameðferð með lyfinu. Lyfjaskírteinin munu gilda til 1. október 2020 og verða sýnileg í „Réttindagátt – Mínar síður“ á vef
  Sjúkratrygginga www.sjukra.is.
 • Lyfjaskírteini fyrir sjúklinga sem ekki eru nú þegar í langtíma meðferð með lyfinu, verða gefin út að beiðni læknis og að uppfylltum ábendingum lyfsins. ( sjá vinnureglu á vef SÍ)
 • Umsókn um lyfjaskírteini skal gerð af sérfræðingum í gigtarlækningum, húðlækningum eða ónæmislækningum. Einnig geta sérfræðingar í smitsjúkdómum sótt um lyfjaskírteini og þá eingöngu við malaríu.
 • Aðeins verður heimilt að afgreiða og afhenda lyfið í apótekum gegn því að fyrir liggi gilt lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands.
 • Eingöngu er heimilt að afgreiða lyfjaávísanir á Plaquenil útgefnar frá og með deginum í dag (24. mars 2020).
 • Aðeins er heimilt að afhenda sem samsvarar 30 daga skammti hvers sjúklings skv. lyfjaávísun læknis. Dæmi: Ef fyrirmæli læknis um notkun er tvær töflur á sólarhring þá er aðeins heimilt að afhenda 60 töflur. Lyfjabúðum er heimilt að rjúfa pakkningar til að uppfylla þetta skilyrði.
 • Haft verður samband við þá lækna sem sjá um meðferð flestra sem nota Plaquenil og þeir beðnir um að hafa samband við skjólstæðinga sína. Ef einhver í langtíma meðferð með lyfinu hefur ekki heyrt frá lækni sínum fyrir næstu helgi er rétt að hafa samband við lækninn.
 • Læknum er bent á að skoða lyfjasögu hvers og eins áður en ávísað er og ávísa lyfinu ekki að nýju fyrr en stutt er í að birgðir hvers og eins klárist. Mikilvægt er að sem minnst liggi í birgðum heima hjá hverjum og einum.
 • Hafi einhver sem er í langtíma meðferð með Plaquenil ekki fengið útgefið lyfjaskírteini fyrir 28. mars nk. er viðkomandi bent á að senda ábendingu þar að lútandi til [email protected]  Vinsamlega skoðið Réttindagáttina fyrst.

Framangreindar aðgerðir sem lúta að takmörkunum á afhendingu lyfsins, bæði er varðar lyfjaskírteini og það magn sem afhenda má hverju sinni, byggja á III. bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 1266/2017 , sbr. reglugerð nr.244/2020 . Með frétt þessari telst uppfyllt skilyrði ákvæðisins um að tilkynna lyfjabúðum um takmarkanir samkvæmt ákvæðinu.

Fyrirkomulagið sem framangreindar aðgerðir og takmarkanir koma á gilda til 1. júní 2020 en lyfjaskírteini gilda þó til 1. október 2020. Breytingar kunna að vera gerðar á fyrirkomulaginu ef þörf krefur, t.d. að stytta það, lengja og/eða breyta. Sérstaklega verður tilkynnt um slíkar breytingar ef til þeirra kemur.

Hvatning til lækna og lyfjafræðinga 

Lyfjastofnun minnir á bréf heilbrigðisráðuneytisins frá 23.2.2020 til lækna og lyfjafræðinga um að leggjast á árarnir með heilbrigðisyfirvöldum svo tryggt sé að sjúklingar sem lífsnauðsynlega þurfa á lyfjum að halda, hafi áfram öruggt aðgengi að þeim og komið sé í veg fyrir óþarfa lyfjaskort.

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat