Rauðan varúðarþríhyrning má finna á pakkningum ákveðinna lyfja og er honum ætlað að gefa til kynna að lyfið geti valdið slævingu sem hefur áhrif á hæfni til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni.

Upplýsingar um áhrif lyfja hvað varðar akstur og notkun véla eru ávallt tilgreindar í fylgiseðli hvers lyfs og því er afar mikilvægt að lesa hann áður en lyf eru notuð.
Áhrif lyfja eru mismunandi eftir einstaklingum og því er listi Lyfjastofnunar yfir lyf sem bera skuli rauðan viðvörunarþríhyrning ekki tæmandi. Lyf sem eru ekki á listanum geta engu að síður haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla. Því ber hverjum og einum að meta eigin hæfni samhliða notkun lyfja.
Þríhyrningurinn er hluti af s.k. sérkröfum fyrir Ísland (blue box) um viðbótaráletranir fyrir umbúðir lyfja. Lyf sem geta dregið úr hæfni til aksturs og notkunar véla eiga að vera merkt með rauðum varúðarþríhyrningi. Þessa kröfu um viðbótaráletrun má rekja til þess tíma þar sem sameiginleg regla þess efnis gilti á öllum Norðurlöndunum en staðan hefur breyst á síðastliðnum árum.
Markaðsleyfishafar bera ábyrgð á að pakkningar séu rétt merktar
Lyfjastofnun hefur gefið út lista yfir þau lyf sem merkja skal rauðum varúðarþríhyrningi hérlendis. Markaðsleyfishöfum og umboðsmönnum er skylt að sjá til þess að lyf sem eru á listanum séu merkt rauðum þríhyrningi. Ef hann er ekki prentaður á umbúðir lyfsins skal merkja pakkningarnar sérstaklega með límmiða.
Eins og um aðrar áletranir gildir að Lyfjastofnun getur haft frumkvæði að því að pakkning lyfs sé merkt með rauðum varúðarþríhyrning. Ef um samheitalyf er að ræða er ætlast til að markaðsleyfishafi merki lyf rauðum þríhyrningi ef frumlyfið er merkt þríhyrningi.
Mikilvægt er að markaðsleyfishafar hafi í huga að ef fram kemur í lyfjatextum að ráðið sé frá því að aka ökutæki eða stýra vélum undir áhrifum lyfs skal merkja umbúðir með rauðum varúðarþríhyrning, hvort sem lyfið er á listanum eða ekki.
Gert er ráð fyrir að aðilar séu að fullu búnir að uppfylla kröfur um viðbótarmerkingar frá og með 1. janúar 2026.
Listi yfir þau lyf sem merkja á rauðum viðvörunarþríhyrningi