Sala á sýklalyfinu Staklox hefur verið stöðvuð í varúðarskyni

Í Danmörku hefur greinst fjölónæm baktería í sýklalyfinu Dicillin. Lyfið er ekki fáanlegt á Íslandi, en sambærilegt lyf selt hér er Staklox sem er í hylkjum frá sama framleiðanda og Dicillin. Sala á Staklox hefur verið stöðvuð meðan verið er að rannsaka málið. Sjúklingar á Íslandi eiga ekki að breyta sinni lyfjameðferð

Dönsku lyfjastofnuninni bárust nýlega upplýsingar um að nokkrir einstaklingar þar í landi sem greinst höfðu sýktir af fjölónæmu bakteríunni Enterobacter hormaechei, ættu það sameiginlegt að hafa fengið sýklalyfið Dicillin 500 mg frá lyfjafyrirtækinu Sandoz. Rannsókn leiddi í ljós að ein framleiðslulota af Dicillin innihélt þessa bakteríu, þeirri lotu var aðeins dreift í Danmörku.

Sala á Staklox stöðvuð í varúðarskyni á Íslandi

Sala á sýklalyfinu Staklox hefur verið stöðvuð í varúðarskyni hérlendis meðan á rannsókn stendur. Staklox er í hylkjum sem eru frá sama framleiðanda og lyfið Dicillin. Tvær framleiðslulotur Staklox hafa verið í dreifingu hérlendis undanfarna mánuði. Báðar loturnar voru framleiddar áður en lotan sem dreift var í Danmörku var framleidd. Sú lota sem innihélt fjölónæma bakteríu í Danmörku hefur ekki verið til sölu á Íslandi.

Lyfjastofnun heldur rannsókn á málinu áfram og mun miðla frekari upplýsingum eftir því sem þörf krefur.

Mikilvægt að sjúklingar ljúki sýklalyfjameðferð

Mikilvægt er að þeir sjúklingar sem byrjað hafa sýklalyfjameðferð með Staklox og hvers kyns sýklalyfjum haldi henni áfram samkvæmt leiðbeiningum til að vinna bug á viðkomandi sýkingu.

Síðast uppfært: 9. febrúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat