Skortur á bóluefni við lifrarbólgu A og B

Skortur er á bóluefnunum Havrix og Twinrix sem gefin eru til varnar lifrarbólgu A annars vegar, og lifrarbólgu A og B hins vegar.  Ástæðan er framleiðsluvandi og því er um skort á heimsvísu að ræða.

Lyfjastofnun hefur unnið að því undanfarið að finna lausn á vandanum í samstarfi við umboðsaðila og innflytjanda. 

Bóluefnið Havrix, er ekki fáanlegt hér á landi. Hins vegar er fáanlegt annað bóluefni í sama lyfjaflokki sem er ekki á markaði á Íslandi, Vaqta, en hægt er að afgreiða það sem undanþágulyf með rafrænum og skjótvirkum hætti. Af því komu 200 skammtar til landsins í byrjun vikunnar og 100 skammtar eru væntanlegir í næstu viku.

Bóluefnið Twinrix er einnig ófáanlegt tímabundið hérlendis. Twinrix, eins og Havrix, er framleitt í tvenns konar styrkleika, annars vegar fyrir börn, hins vegar fyrir fullorðna. Samkvæmt upplýsingum frá innflytjanda er Twinrix fyrir fullorðna ekki væntanlegt fyrr en í október næstkomandi, en Twinrix fyrir börn verður hægt að fá í byrjun næstu viku. Þá ættu 680 skammtar þess bóluefnis að vera komnir til landsins.

Síðast uppfært: 24. apríl 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat