Til lækna: Paratabs retard af markaði 1. júní

Ekki hægt að ávísa Paratabs retard frá og með 1. júní 2018

Frá og með 1. júní nk. verður Paratabs retard fellt úr lyfjaskrám og verður þar af leiðandi ekki hægt að ávísa því né afgreiða það úr lyfjabúðum frá og með þeim degi. Læknum verður kleift að ávísa Paratabs retard til og með 31. maí  2018 og jafnframt er lyfjabúðum heimilt að afgreiða lyfið til og með 31. maí 2018.

Læknar finni aðra viðeigandi lyfjameðferð fyrir sjúklinga 

Til þess að lágmarka áhrif ákvörðunarinnar á sjúklinga fer Lyfjastofnun þess á leit við ávísandi lækna að finna viðeigandi lyfjameðferð fyrir þá sjúklinga sem ákvörðunin kemur til með að hafa áhrif á, einkum þá sem eiga gildandi fjölnota seðil.

Athygli er jafnframt vakin á því að ákvörðunin nær ekki til annarra lyfja sem innihalda parasetamól en þó nokkur slík lyf eru á markaði á Íslandi.

Hætta á eitrun hjá sjúklingum sem tekið hafa of stóran skammt

Niðurfelling markaðsleyfisins er tímabundin og byggir á bindandi ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Ástæða ákvörðunarinnar er áhætta á eitrun hjá sjúklingum sem tekið hafa of stóran skammt af parasetamóli með breyttan losunarhraða. Reynslan hefur sýnt að hefðbundnar aðferðir við meðhöndlun sjúklinga sem tekið hafa of stóran lyfjaskammt henta ekki þegar um parasetamól með breyttan losunarhraða er að ræða. Það er vegna þess hvernig parasetamól með breyttan losunarhraða losnar í líkamanum. Í mörgum tilfellum ofskömmtunar er óljóst hvort hún er af völdum parasetamóls með breyttan losunarhraða sem gerir heilbrigðisstarfsfólki erfitt fyrir að ákveða hvers konar meðhöndlun er þörf á. Í ofskömmtunartilfellum skiptir máli hvort um parasetamól með breyttan losunarhraða er að ræða því það hefur áhrif á ákvarðanir heilbrigðisstarfsfólks s.s. hvenær og hve lengi á að gefa sjúklingnum móteitur. Of hár lyfjaskammtur getur annars valdið alvarlegri lifrarbilun eða dauða. 

Lyfjastofnun áréttar að ávinningur Paratabs retard vegur hærra en áhættan sem fylgir notkuninni þegar lyfið er notað á réttan hátt og í ráðlögðum skammtastærðum.

Sjá nánar um málskotið í frétt okkar.

Dreifibréf til lækna vegna Paratabs retard.

Síðast uppfært: 13. mars 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat