01. Hvernig fer álagning lyfjaeftirlitsgjalda fram ?

Lyfjastofnun innheimtir lyfjaeftirlitsgjöld skv. 90. gr. lyfjalaga nr. 100/2020.

Eftirlitsgjald skal ákvarðað á eftirfarandi hátt (2. mgr. 90. gr. lyfjalaga):

  1. Vegna starfsemi lyfsöluleyfishafa 0,3% af heildarfjárhæð greiðslu sjúkratryggingastofnunarinnar og/eða annarra opinberra aðila til þessara aðila vegna lyfjasölu árið á undan álagningarári en af heildarfjárhæð lyfjainnkaupa (heildsöluverð án virðisaukaskatts) þessara aðila ef sú fjárhæð er hærri en sem nemur greiðslu sjúkratryggingastofnunarinnar og/eða annarra opinberra aðila. Fjárhæð eftirlitsgjaldsins skal þó aldrei vera lægri en 250.850 kr. á ári.
  2. Vegna starfsemi lyfjaframleiðenda, þ.m.t. blóðstöðva og blóðbanka, lyfjaheildsala, lyfjamiðlara, handhafa lyfsöluleyfis dýralækna og handhafa sérstakra leyfa til lyfsölu, 0,3% af heildarsölu lyfja (heildsöluverð án virðisaukaskatts) árið á undan álagningarári. Fjárhæð eftirlitsgjaldsins skal þó aldrei vera lægri en 116.870 kr. á ári.
  3. Vegna starfsemi dýralækna, heilbrigðisstofnana og starfsstofa heilbrigðisstarfsmanna 0,3% af heildarfjárhæð lyfjainnkaupa (heildsöluverð án virðisaukaskatts) árið á undan álagningarári. Fjárhæð eftirlitsgjaldsins skal þó aldrei vera lægri en 25.950 kr. á ári.
  4. Vegna starfsemi innflytjenda og framleiðenda lyfjablandaðs fóðurs 0,3% af heildarfjárhæð lyfjainnkaupa til íblöndunar í fóður. Fjárhæð eftirlitsgjaldsins skal þó aldrei vera lægri en 116.870 kr. á ári.

Fjárhæðir skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. eru á verðlagi desember 2018. Fjárhæð lágmarksgjalds 1.–4. tölul. 2. mgr. skal taka breytingum einu sinni á ári, 15. janúar ár hvert, og miðast við að 70% fylgi launavísitölu og 30% fylgi vísitölu neysluverðs og verðlagsuppfærslu fjárlaga hvers árs. Af heildarfjárhæðum gjalda skv. 1.–4. tölul. 2. mgr. skulu 70% teljast vegna launakostnaðar og 30% vegna annars kostnaðar og skal taka mið af þeirri skiptingu við endurmat fjárhæða.

Þegar lágmarks upphæðir lyfjaeftirlitsgjalda viðkomandi árs liggja fyrir mun Lyfjastofnun birta frétt þess eftir á heimasíðu sinni.

Sjúkratryggingastofnuninni, Landspítala og þeim aðilum sem taldir eru upp í 1. mgr. 90. gr. er skylt að veita Lyfjastofnun nauðsynlegar upplýsingar til álagningar eftirlitsgjalda. Veiti aðilar sem taldir eru upp í 1. mgr. 90. gr. ekki nauðsynlegar upplýsingar er Lyfjastofnun heimilt að áætla eftirlitsgjald.

Eftirlitsgjald skal lagt á árlega eftir á skv. 6. mgr. 90. gr. Gjalddagi skal vera 30 dögum eftir dagsetningu reiknings og skulu dráttarvextir reiknast frá gjalddaga.

Síðast uppfært: 29. desember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat