Ákvörðun um að takmarka ávísun nokkurra eftirritunarskyldra lyfja frestað til 1. janúar 2018

Lyfjastofnun hefur yfirfarið þær
umsagnir sem borist hafa vegna fyrirhugaðra aðgerða til að takmarka heimild til
ávísunnar nokkurra eftirritunarskyldra lyfja. Í næstu viku verður fundað með
fagaðilum og farið enn frekar yfir þær ábendingar og athugasemdir sem hafa
borist. Ákvörðuninni um að takmarka ávísun nokkurra eftirritunarskyldra lyfja
með tilgreint hámarksmagn hvers lyfs er frestað til 1. janúar 2018. Frekari
útfærsla ákvörðunarinnar verður tilkynnt síðar.

Lyfjastofnun er enn þeirrar
skoðunar að þrátt fyrir að ýmsar hömlur og sérstakt eftirlit sé nú þegar í
gildi vegna eftirritunarskyldra lyfja sé ekki nægilegt gert til að stemma
stigu við misnotkun lyfjanna sem um ræðir. Ljóst er að margt má betur fara þegar skoðaðar eru notkunartölur
hérlendis, miðað við notkun á hverja þúsund íbúa, og þær bornar saman við
samskonar tölur frá öðrum Norðurlöndum. Vísar Lyfjastofnun hér t.d. til ritstjórnargreinar Læknablaðsins frá því fyrr á þessu ári og grein á vef Lyfjastofnunar. Lyfjastofnun telur að fréttir sem fluttar eru reglulega hér á landi af
misnotkun og dauðsföllum í tengslum við misnotkun renni enn frekari stoðum
undir þetta álit stofnunarinnar.

Lyfjastofnun mun skoða enn frekar
þau úrræði sem stofnunin hefur til að sporna gegn misnotkun sterkra verkjalyfja
og ávana- og fíknilyfja.

Forsaga málsins

Þann 15. september s.l. óskaði
Lyfjastofnun eftir umsögnum vegna fyrirhugaðra aðgerða til að takmarka heimild
til ávísunar nokkurra eftirritunarskyldra lyfja sem afgreidd eru til sjúklinga
frá og með 1. nóvember 2017. Var þess óskað að umsagnir bærust Lyfjastofnun
fyrir lok dags 30. september 2017 og var frestur þessi síðan framlengdur til
15. október að ósk hagsmunaaðila.

Fyrirhugað var að skipta þessu
verkefni upp í áfanga og listi var birtur yfir þau lyf sem áætlað var að taka
fyrst fyrir.

Búið að yfirfara umsagnir sem bárust

Lyfjastofnun hefur nú farið yfir þær
umsagnir sem bárust og eru þær flestar gagnrýnar á fyrirhugaðar aðgerðir þó svo
að í umsögnunum komi einnig fram fjöldamargar ábendingar um það sem betur má
fara og jafnvel tillögur um enn frekari takmarkanir. Almennt er bent er á að
fyrirhuguð ákvörðun hafi í för með sé aukinn kostnað, bæði fyrir sjúklinga og Sjúkratryggingar
Íslands, samhliða auknu álagi lækna auk þess að um sé að ræða of skamman tíma
fyrir breytingar af þessum toga. Flestir umsagnar aðilar eru hins vegar sammála
um að skoða þurfi frekar notkun eftirritunarskyldra lyfja og telja jákvætt að
Lyfjastofnun leiti leiða til að draga úr misnotkun þessara lyfja. Lyfjastofnun
mun leitast við að vinna að farsælli útfærslu í samráði við við fagaðila.

Sjá einnig:

Heimild til ávísunar eftirritunarskyldra lyfja takmarkist við tilgreint hámarksmagn hvers lyfs

Tillögur að ráðstöfunum Lyfjastofnunar til að hamla gegn misnotkun eftirritunarskyldra lyfja

Síðast uppfært: 20. október 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat