COVID-19: Tilvik blóðtappa í kjölfar bólusetningar með Janssen bóluefninu rannsökuð

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja hefur hafið rannsókn á tilvikum blóðtappa sem tilkynnt voru í kjölfar bólusetningar með bóluefninu COVID-19 Vaccine Janssen. Rannsóknin miðar að því að meta hvort orsakasamband er milli notkunar bóluefnisins og blóðtappamyndunar

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur verið tilkynnt um fjögur alvarleg tilvik blóðtappa þar sem fækkun blóðflagna er einnig til staðar, í kjölfar bólusetningar með bóluefninu COVID-19 Vaccine Janssen. Eitt þessara tilvika kom upp í klínískri rannsókn, hin þrjú eftir að bólusetning hófst í Bandaríkjunum. Eitt tilvikanna leiddi til dauða.

Notkun ekki enn hafin í Evrópu

Sem stendur er bóluefni Janssen einungis notað í Bandaríkjunum samkvæmt neyðarleyfi þar í landi. Bóluefnið var samþykkt til notkunar á Evrópska efnahagssvæðinu 11. mars sl. en bólusetning með því er enn ekki hafin þar. Þó er búist við því að það geti orðið á næstu vikum.

Óljóst um orsakasamhengi

Rannsókn sérfræðinganefndar EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) miðar að því að meta hvort orsakasamband er milli notkunar bóluefnisins og blóðtappamyndunar. Í kjölfarið verður tekin ákvörðun um hvort breyta þurfi leiðbeiningum um notkun bóluefnisins og uppfæra upplýsingatexta lyfsins.

Lyfjastofnun mun miðla upplýsingum um framvindu málsins.

Rannsókn PRAC á Janssen bóluefninu hófst á síðasta reglubundna fundi nefndarinnar 6.-9. apríl. Á þeim fundi var einnig birt niðurstaða rannsóknar nefndinnar um hugsanleg tengsl bóluefnis AstraZeneca, Vaxzevria við blóðtappamyndun, eins og sagt var frá í frétt hér á vefnum.

Frétt EMA um PRAC fund í apríl

Dagskrá PRAC fundar í apríl

Síðast uppfært: 9. apríl 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat