Minnt á skyldu markaðsleyfishafa að tilkynna lyfjaskort á sumarleyfistíma

Að gefnu tilefni og reynslu síðastliðinna ára vill Lyfjastofnun minna markaðsleyfishafa (MLH) og umboðsmenn þeirra á skyldu þeirra að tilkynna lyfjaskort tímanlega til stofnunarinnar, einnig á sumarleyfistíma.

Tilkynningarskylda um fyrirséðan lyfjaskort

Skyldu MLH um að tilkynna lyfjaskort til stofnunarinnar er að finna í 6. mgr. lyfjalaga nr. 100/2020 og 7. mgr. 81. gr. reglugerðar um markaðsleyfi sérlyfja, merkingar þeirra og fylgiseðla, nr. 545/2018.

Tilkynna skal um skort á lyfi (skráð lyf tímabundið ekki á markaði) með tveggja mánaða fyrirvara hið minnsta, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Ef um sérstakar aðstæður er að ræða er mikilvægt að það komi fram í tilkynningu af hverju ekki er tilkynnt með tveggja mánaða fyrirvara. Stofnunin vekur athygli á að tilkynningarform fyrir lyfjaskort er að finna á mínum síðum Lyfjastofnunar.

Vanræksla tilkynningarskyldu

Lyfjastofnun bendir á að fyrirfarist hjá MLH að tilkynna um yfirvofandi lyfjaskort getur komið til álita að líta á slíka vanrækslu sem brot á ákvæðum lyfjalaga nr. 100/2020 og reglugerðar nr. 545/2018. Brot gegn ákvæðum laganna og reglugerðarinnar geta varðað áminningu eða sektum.

MLH og umboðsmenn eru hvattir til að virða tilkynningarskyldu lyfjalaga og þau tímamörk sem þar eru sett og fara sérstaklega yfir stöðu birgða og tilkynna til stofnunarinnar fyrirséðan skort á framboði.

Bæði MLH og heildsalar eru hvattir til að vinna saman að birgðastýringu með því lagi að endurnýja birgðir tímanlega svo mögulegar tafir á slíkri endurnýjun valdi ekki skorti. Reglulega koma upp skortstilvik þar sem ástæða skorts er tilgreind sem tafir við flutning.

Á ábyrgð markaðsleyfishafa að meta lyfjaskort

Það er á ábyrgð markaðsleyfishafa (eða umboðsmanns hans) að meta, út frá söluveltu lyfsins og lengd áætlaðs biðtíma, hvort um fyrirséðan skort sé að ræða. Að öllu jöfnu er betra að hafa varann á og tilkynna frekar en ekki ef vafi leikur á hvort lyfið muni skorta í lyfjabúðum.

Hvenær er um lyfjaskort að ræða?

Í Evrópu er stuðst við eftirtalda skilgreiningu á lyfjaskorti, eins og fram kemur í leiðarvísi samstarfshóps forstjóra lyfjastofnana EES ríkjanna:

Um lyfjaskort er að ræða þegar framboð af einstakri pakkningu (vnr.) lyfs með markaðsleyfi annar ekki eftirspurn eða þörf lyfjanotenda í því landi þar sem það er skráð.

Síðast uppfært: 31. maí 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat