Tillaga að Evrópulöggjöf um mikilvæg lyf

Framkvæmdastjórn ESB lagði í mars sl. fram tillögu að löggjöf um mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf. Tillagan er viðleitni til að vinna gegn skorti á mikilvægum lyfjum

Tillaga að löggjöf um mikilvæg og lífsnauðsynleg lyf (e. Critical Medicines Act) hefur verið á meðal forgangsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB um nokkurt skeið, en lyfjaskortur hefur verið vaxandi áhyggjuefni Evrópuríkja á liðnum misserum.

Brugðist hefur verið við með ýmsum hætti

Margvíslegum aðgerðum gegn lyfjaskorti og auknu afhendingaröryggi lyfja hefur verið hrint í framkvæmd á síðustu árum, bæði á Evrópuvísu, t.d. með stofnun stýrihóps um lyfjaskort, MSSG, og samantekt lista yfir mikilvæg lyf, en einnig í hverju ríki fyrir sig, þar á meðal hérlendis. Engu að síður þykir ástæða til að gera enn betur, m.a. með því að draga lærdóm af erfiðleikatímum í líkingu við þá sem urðu í heimsfaraldri COVID-19 og eftir að stríð hófst í Úkraínu.

Stefnt að því að styrkja framleiðslu lyfja í Evrópu

Löggjafartillagan er þáttur í áframhaldandi viðleitni til að vinna gegn skorti á mikilvægum lyfjum og miðar að því að tryggja sjálfbærni og sjálfstæði Evrópu í því sem snýr að framleiðslu, og þar með framboði nauðsynlegra lyfja og innihaldsefna þeirra. Tillagan er viðbót við fyrirliggjandi tillögur um endurskoðun löggjafar ESB um lyf fyrir menn.

Samhliða tillögunni voru kynntar uppfærðar leiðbeiningar um ríkisaðstoð til að aðstoða aðildarríki við fjármögnun verkefna af því tagi sem hér eru undir.

Tillagan felur í sér eftirfarandi áherslur:

  • Að styrkja framleiðslugetu ESB á sviði mikilvægra lyfja með stefnumiðuðum verkefnum (e. Strategic Projects).
  • Að nýta opinber innkaup til að tryggja áreiðanlegri aðfangakeðjur mikilvægra lyfja og bæta aðgengi að öðrum lyfjum.
  • Að styðja við sameiginleg innkaup ESB-ríkja (e. Collaborative Procurement) til að tryggja sanngjarnan aðgang allra ríkja að mikilvægum lyfjum á EES svæðinu
  • Að efla samstarf við líkt þenkjandi ríki í því skyni að styrkja aðfangakeðjur, og draga úr líkum á að Evrópumarkaðir verði of háðir einum eða takmörkuðum fjölda birgja.

Tillagan hefur verið send til umfjöllunar á Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.

Síðast uppfært: 12. júní 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat