Tilefni málþingsins var 25 ára afmæli Lyfjastofnunar en stofnunin varð til með sameiningu Lyfjanefndar ríkisins og Lyfjaeftirlits ríkisins árið 2000 og tók hin sameinaða stofnun formlega til starfa 1. nóvember það ár.

Aukin hætta vegna falsaðra lyfja
Rík ástæða er til að vekja athygli á hættunni sem stafar af fölsuðum lyfjum. Lyfjafalsanir færast sífellt í aukana og það svo mjög að Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og forstjórar aðildarstofnananna sáu fyrr í haust ástæðu til að vara við auknu framboði ólöglegra lyfja.
Dagskrá málþingsins
Málþingið hófst með ávarpi heilbrigðisráðherra, Ölmu Möller, sem flutti hamingjuóskir í tilefni afmælisins, en jafnframt þakkir fyrir vel unnin og mikilvæg störf á vettvangi stofnunarinnar. Að því loknu var fjallað um fölsuð lyf út frá ýmsum sjónarhóli í fjórum stuttum fyrirlestrum.
Andrea Þórhallsdóttir eftirlitsmaður hjá Lyfjastofnun varpaði fram spurningunni hvort fölsuð lyf væru raunveruleg hætta á Íslandi og svarið við því var já. En sagði jafnframt eftirlit vera öflugt, m.a. í gegnum samstarf evrópsku lyfjastofnananna. Þær vinni náið saman þegar upp kemur grunur um fölsuð lyf í aðfangakeðju löglegra lyfja.
Martin Burman formaður samevrópsks vinnuhóps sem vaktar ógnir í framleiðslu og dreifingu lyfja (WGEO) sagði m.a. frá því að nýlega hefði verið upprætt gríðar umfangsmikil framleiðsla lyfja í Svíþjóð sem fram fór við óboðlegar aðstæður.
Guðlaugur Ómar Tómasson hjá tollgæslusviði Skattsins greindi frá hve óhræddir stórtækir smyglarar eru orðnir, geri oft lítið til að fela ólöglegu lyfin og taki gjarnan mikla áhættu, eins og þegar 20.000 falsaðar oxycodon töflur fundust fyrr á árinu.
Adam Erik Bauer verkefnastjóri hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði sagði frá hvernig sífellt greindust ný og ný ólögleg efni, bæði í lífsýnum og skólpi, og þar væri bæði um fíkniefni að ræða og eftirlíkingar löglegra lyfja. Sveiflur í framboði á ólöglega markaðnum væru miklar. Í lokin voru pallborðsumræður og spurningum gesta í sal var svarað.
Þótti málþingið takast með ágætum og undirstrikaði mikilvægi þess að fá fjölbreytt sjónarhorn á málefnið.










