Meðal þess sem fjallað var um á fundinum var skilyrt markaðsleyfi fyrir Anktiva (nogapendekin alfa inbakicept) og hlaut það meðmæli nefndarinnar. Anktiva er meðferð við krabbameini í þvagblöðru sem bundið er við þekju innanvert á blöðrunni, og líkur eru á að vaxi og dreifi sér.
Lyfið Aumseqa (aumolertinib) hlaut jákvæða umsögn CHMP. Þetta er lyf við tiltekinni gerð lungnakrabbameins, tilkomnu af fráviki í geni sem stýrir vexti frumna og veldur því að hann verður hömlulaus (EGFR stökkbreyting).
Exdensur (depemokimab) er meðferð við sérstakri tegund astma sem nefnist alvarlegur eósínókær astmi (severe eosinophilic asthma), en einnig við alvarlegri og langvinnri skútabólgu með sepum í nefi. Mælt var með að lyfið fengi markaðsleyfi.
Lyfið Myqorzo (aficamten) hlaut jákvæða umsögn sérfræðinganefndarinnar. Þetta er lyf fyrir fullorðna við ofvaxtarhjartavöðvakvilla með teppu (hypertrophic obstructive cardiomyopathy), sjúkdómi sem veldur þykknun í hjartavöðva og getur þar með hindrað blóðflæði frá hjartanu til annarra hluta líkamans.
CHMP mælti með markaðsleyfi fyrir mRNA bóluefnið Mnexspike gegn COVID-19, fyrir fullorðna og börn frá 12 ára aldri.
Tvær líftæknilyfjahliðstæður hlutu jákvæða umsögn CHMP, Gotenfia (golimumab) við ýmsum bólgusjúkdómum, m.a. sóraliðbólgu og liðagigt, og Ranluspec (ranibizumab), lyf m.a. við aldurstengdri sjóndepilsrýrnun tengdri nýmyndun æða.
Viðbótarábendingar
Sérfræðinganefndin mælti með viðbótarábendingum tólf lyfja. Þar á meðal Mounjaro (tirzepatide) til meðferðar sykursýki af gerð 2 sem ekki hefur náðst hemja, hjá ungmennum og börnum frá 10 ára aldri. Einnig viðbótarábendingar lyfjanna Arexvy, Aspaveli, Dovprela, Elucirem, Eylea, Nucala, Recarbrio, Simponi, Uplizna, Vueway og Winrevair.
Endurmat
CHMP skilaði á fundinum lokaniðurstöðu endurmats um notkun lyfsins Melatomed, en endurmatið fór fram vegna ágreinings aðildarstofnana EMA um markaðsleyfi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að ávinningur af notkun lyfsins væri meiri en áhættan og markaðsleyfi skyldi því veitt í löndum þar sem sótt hefði verið um leyfið.
Þá mælti sérfræðinganefndin með breyttum frábendingum lyfsins Vfend.
Nánari upplýsingar í frétt EMA um fund CHMP í desember