Árlegur dagur vitundarvakningar um sýklalyfjaónæmi er í dag, 18. nóvember. Það var árið 2008 sem Sóttvarnastofnun Evrópu (ECDC) hóf að vekja athygli á þessu brýna máli á þann hátt að vera bakhjarl sóttvarna- og lyfjayfirvalda í ríkjum á EES svæðinu í vitundarvakningunni. Síðan hefur átakið aukist að umfangi, m.a. með samvinnu við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, WHO. Í dag hefst líka hefst vitundarvika um skynsamlega notkun sýklalyfja á vegum stofnunarinnar.
Ógn við heilsu almennings
Ekki veitir af átaki sem þessu, því sýklalyfjaónæmi er ógn við heilsu almennings á heimsvísu. Ef hin mikilvæga meðferð við bakteríusýkingum sem við höfum getað notið frá því að skoski líffræðingurinn Alexander Fleming fann upp fyrsta sýklalyfið, penisillínið, virkar ekki, erum við enn á ný berskjölduð fyrir slíkum sýkingum. Sóttvarnastofnun Evrópu áætlar að um 35.000 dauðsföll verði árlega á EES svæðinu af völdum sýkla sem orðnir eru ónæmir fyrir sýklalyfjum.
Mikilvægt að draga úr notkun eins og hægt er
Eins og kemur fram á vef sóttvarnalæknis eru orsakir sýklalyfjaónæmis margvíslegar, en óvarleg notkun sýklalyfja bæði hjá mönnum og fyrir dýr, er meginþátturinn. Því hefur árum saman verið reynt að stemma stigu við notkun sýklalyfja, að þau séu ekki notuð nema nauðsyn krefji. Markmið Evrópusambandsins er að notkunin minnki um 20% fram til ársins 2030, með árið 2019 sem viðmið. Því miður varð raunin á hinn veginn á síðasta ári, 2024, þegar notkunin jókst um 2% miðað við það sem var 2019. Svo betur má ef duga skal.