Lyfjastofnanir norrænu landanna eiga allar aðild að Lyfjastofnun Evrópu, með þeim mikilvægu tengslum sem því fylgja. Forstjórar norrænu stofnananna halda engu að síður sérstaka reglubundna fundi til að bera saman bækur sínar, enda hafa þessar stofnanir nokkra sérstöðu vegna smæðar norrænu þjóðanna í samanburði við flestar aðrar Evrópuþjóðir. Viðfangsefni þeirra eru því að sumu leyti sértæk.
Fundurinn
Fundurinn fór fram miðvikudaginn 29. október sl. Fjölmargt var til umfjöllunar en fundurinn hófst með kynningu mannauðsstjóra Lyfjastofnunar á stefnu stofnunarinnar í mannauðsmálum. Að henni lokinni tók við samtal um ýmis mál.
Rætt var um undirbúning og innleiðingu nýs regluverks sem snýr að heilsutæknimati, (HTA), og um lagalegan og siðferðilegan ramma gervigreindar. Enn fremur ræddu forstjórarnir fjármögnun stofnananna, forgangsröðun verkefna og gjaldskrárvinnu, lyfjagát og klínískar rannsóknir. Þá komu til umræðu fyrirbyggjandi aðgerðir vegna mögulegs stríðsreksturs, bæði það sem snýr að lyfjaframleiðslu og lyfjaöryggi, en einnig því að mögulega þyrfti að kalla starfsfólk sem starfar fyrir lyfjastofnanirnar í bakvarðasveitir.
Veðrið
Forstjórar fjögurra norrænu ríkjanna áttu bókað flug til Íslands á mismunandi tímum þriðjudaginn 28. október. Skömmu áður hafði verið spáð mikilli ofankomu á landinu þennan dag og sú veðurspá rættist rækilega. Einungis finnski forstjórinn, Eija Pelkonen. náði til landsins snemma um morguninn, hinir komust hvorki lönd né strönd. Auðvitað kom þá fjarfundatæknin til hjálpar, þannig að tveir forstjórar sátu í húsakynnum Lyfjastofnunar, en hinir hver á sínum stað. Skipulag viðburða fyrir utan hefðbundna dagskrá fór mikið til út um þúfur, en fundurinn sjálfur fór fram með ágætum.
