Nýlega var ýmsum upplýsingum sem varða lyfjaskort bætt við í sérlyfjaskrá, notendum til hagsbóta. Markmiðið er að allar upplýsingar um lyfjaskort séu aðgengilegar á einum stað.
Nýjungarnar nýtast fyrst og fremst heilbrigðisstarfsfólki og starfsfólki apóteka, en þær eru eftirfarandi:
Þegar undanþágulyf hefur verið útvegað
Markaðssett lyf sem tímabundið eru ekki fáanleg eru sérstaklega merkt á lyfjaspjaldinu í sérlyfjaskrá. Þar kemur fram tímabilið sem reiknað er með að skorturinn vari, ef vitað er, ástæða skortsins, og ráðleggingar um aðrar lausnir. Hafi undanþágulyf verið útvegað er þess getið, og nú er heiti undanþágulyfsins einnig tilgreint og hvaða heildsala hefur útvegað það. Þetta er gert til að flýta fyrir þeim sem ávísar, létta af álagi og auðvelda ferlið. -Ef ekki er minnst á 52. grein lyfjalaga á bleika fletinum sem fylgir upplýsingum um skortinn, eru útskipti óheimil.

Þegar heimilt er að breyta lyfjaávísun í undanþágulyf
Í sérstökum tilvikum þegar skortur er á markaðssettu lyfi, getur Lyfjastofnun heimilað lyfjafræðingi að breyta lyfjaávísun í undanþágulyf. Slík heimild er aðeins veitt að undangengnu mati stofnunarinnar á því að öryggi sé tryggt. Þessa heimild er að finna í 52. gr. lyfjalaga.
Ef Lyfjastofnun hefur að loknu mati heimilað að ávísun á markaðssett lyf megi breyta í undanþágulyf til að einfalda ferli í skorti, birtast upplýsingar þar um við pakkningu viðkomandi lyfs. Og ef við á kemur einnig fram heiti, styrkleiki og vörunúmer þess undanþágulyfs sem unnt er að skipta ávísun í.

Lista yfir þær heimildir sem gilda hverju sinni skv. 52. grein má finna með því að smella á hnappinn „Ávísun breytt í undanþágulyf“ á forsíðu sérlyfjaskrár.

Gildistími heimilda
Frá og með 1. október 2025 mun hver heimild til að breyta ávísun í undanþágulyf gilda meðan á skorti viðkomandi lyfs stendur, og að auki viku til viðbótar. Ávísanir á undanþágulyf sem koma í stað lyfs í skorti - þegar ekki er hægt að samþykkja útskipti í apóteki - munu einnig verða samþykktar í viku eftir að skortur er yfirstaðinn. Þessi viðbótarvika er til að tryggja að markaðssetta lyfið hafi borist til allra landshluta áður en heimild til útskipta rennur út. Með þessu er vonast til að meiri fyrirsjáanleiki verði fyrir heildsölur sem útvega undanþágulyf, og fyrir apótek til að tryggja sér birgðir fyrir lyfjanotendur.