Lyfjastofnun hættir að taka við eftirritunarskyldum lyfjum til förgunar

Breytingin tekur gildi 1. nóvember nk.

Frá og með 1. nóvember næstkomandi mun Lyfjastofnun ekki lengur taka við fyrndum ávana- og fíknilyfjum til förgunar.

Þessi tilhögun er tilkomin vegna breytingar á reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni sem tekur einmitt gildi 1. nóvember 2025. Frá þeim tíma munu lyfsöluleyfishafar sjá alfarið um framkvæmd förgunar á ávana- og fíknilyfjum, bera ábyrgð á förguninni og að förgunin sé framkvæmd í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 233/2001.

Reglur um förgun ávana- og fíkniefna miða að því að tryggja vernd manna og umhverfis gegn skaðlegum áhrifum og á þann hátt að útilokað sé að endurheimta megi efnin að nýju í heild eða að hluta.

Eftir sem áður verður heimilt að skila fyrndum eftirritunarskyldum ávana- og fíknilyfjum til lyfjaheildsölu, ef unnt er að fá þau endurgreidd að hluta eða fullu. Staðfestingu lyfjaheildsölu á móttöku lyfjanna skal varðveita í lyfjabúð í að minnsta kosti tvö ár.

Síðast uppfært: 28. október 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat