Lyfseðilsskyld lyf ætti einungis að kaupa í apótekum eða af netverslunum þeirra

Ólögmæt lyfjakaup geta verið varasöm

Í huga margra er e.t.v. ekki mikill munur á því að leysa út lyf í apóteki og kaupa matvöru í næstu verslun. Lyf eru hins vegar ekki eins og hver önnur almenn verslunarvara þar sem þau kunna að innihalda efni sem með rangri notkun eða meðhöndlun geta valdið heilsutjóni.

Lyfjakaup utan löglegrar dreifikeðju, s.s. á netinu, geta verið varasöm og það skal undirstrikað að sala lyfja á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum og á söluvefjum á netinu er með öllu óheimil.


Ríkar gæðakröfur eru gerðar til framleiðenda lyfja og til þess að tryggja gæði lyfjanna sem berast lyfjanotendum byggir dreifikeðja lyfja á leyfisskyldu. Áhætta fylgir því að kaupa lyf frá þeim sem ekki hafa lyfsöluleyfi. Í slíkum tilfellum er engin trygging fyrir því að lyfin uppfylli gæðakröfur eða séu örugg.

Að framleiða og/eða selja ólögleg lyf er glæpsamlegt athæfi. Heilsu og jafnvel lífi neytenda getur verið stefnt í hættu með því að selja lyf sem uppfylla ekki innihaldslýsingar og framleiðslustaðla.

Lyfseðilsskyld lyf skal einungis kaupa af aðilum með lyfsöluleyfi

Góð regla er að kaupa aðeins lyfseðilsskyld lyf af apótekum eða netverslunum þeirra. Auðvelt er að sannreyna að treysta megi netverslun með lyf en tæmandi lista yfir lögmæt netapótek er að finna á vef Lyfjastofnunar. Hafa skal hafa eftirfarandi í huga þegar lyf eru keypt á netinu:

  • Leita skal að sameiginlega kennimerkinu á vefsíðu sem býður lyf til sölu á netinu.
  • Þegar smellt er á sameiginlega kennimerkið áttu að flytjast yfir á vef Lyfjastofnunar þar sem finna má lista yfir þau apótek sem hafa heimild til netverslunar með lyf. Öll lyfjamálayfirvöld EES-ríkja birta sambærilegan lista.
  • Kannaðu hvort sú netverslun sem þú hyggst eiga viðskipti við sé sannarlega að finna á listanum. Aðeins lögmætar netverslanir með lyf er að finna á listanum.
  • Sé netverslunin á listanum er óhætt að kaupa lyfin. Aldrei kaupa lyf á netinu af netverslun sem birtir ekki sameiginlega kennimerkið.
Sameiginlega kennimerkið inniheldur íslenska þjóðfánann og er að finna á öllum lögmætum netapótekum.

Áhættuþættir fylgja því að kaupa lyf af seljendum sem hafa ekki tilskilin leyfi

Með eftirfarandi spurningum og svörum vekur Lyfjastofnun athygli á nokkrum áhættuþáttum sem fylgja því að kaupa lyf frá seljendum sem ekki hafa leyfi til lyfsölu:

Gæti lyfið verið falsað?

Dæmi eru um að framleiðendur ólöglegra lyfja líki eftir löglegum lyfjaumbúðum. Algjörlega er óvíst hvaða efni eru í slíkri vöru og í hvaða magni efnin eru. Mjög erfitt getur verið að greina mismun á umbúðum falsaðra lyfja og löglegra lyfja. Apótek sannreyna öll ávísunarskyld lyf sem þau selja með með að skanna tvíþætt auðkenni á lyfjapakkningu.

Við hvaða aðstæður var lyfið framleitt?

Lyfjaframleiðendur þurfa að uppfylla strangar kröfur um aðstæður við framleiðslu lyfja. Aðstæðurnar þurfa m.a. að vera þannig að fyllsta hreinlætis sé gætt og að komið sé í veg fyrir að í lyfin berist sýklar eða mengandi efni. Einnig er þess krafist að lyf séu framleidd eftir forskrift sem viðurkennd hefur verið af lyfjayfirvöldum að lokinni rannsókn á gæðum, öryggi og verkun lyfs. Vottaðir lyfjaframleiðendur eru undir reglubundnu eftirliti lyfjastofnana. Framleiðendur og sölumenn ólöglegra lyfja eru eftirlitslausir og því engin vissa um að þau uppfylli þær kröfur sem eru gerðar til lyfja.

Hefur lyfið verið geymt við réttar aðstæður?

Ef lyf eru geymd við rangar aðstæður, til dæmis í sólarljósi, við of mikinn hita eða raka, brotnar virka efnið hraðar niður og lyfið gæti misst virkni sína. Einnig gætu myndast niðurbrotsefni með óæskilega virkni. Lyfjaframleiðendum, lyfjaheildsölum og apótekum ber að tryggja örugga geymslu lyfja.

Síðast uppfært: 8. apríl 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat