Neytendur varaðir við auknu framboði ólöglegra lyfja

Framboð ólöglegra lyfja við sykursýki og ofþyngd hefur aukist til muna undanfarið í Evrópu. Þau eru markaðssett á fölskum netsíðum sem GLP-1 viðtakaörvar og eru alvarleg ógn við líf og heilsu fólks

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og forstjórar lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu (HMA) vara almenning við aukinni ógn ólöglegra lyfja sem eru auglýst og seld á netinu í löndum á EES svæðinu.

Framboð ólöglegra sykursýkis- og ofþyngdarlyfja aukist mjög

Á undanförnum mánuðum hefur fjölgað mjög ólöglegum lyfjum sem markaðssett eru sem GLP-1 viðtakaörvar (GLP-1 receptor agonists), svo sem semaglutíð, liraglutíð og tirzepatíð, en lyf af því tagi eru gefin við sykursýki og ofþyngd. Þessi ólöglegu lyf, sem oft eru seld í gegnum svikasíður á netinu og auglýst á samfélagsmiðlum, eru ekki með markaðsleyfi og uppfylla ekki nauðsynlegar kröfur um gæði, öryggi og virkni.

Ólögleg lyf af þessu tagi eru alvarleg heilsufarsógn þar sem virka efnið sem þau eru sögð innihalda gæti vantað, eða lyfið gæti innihaldið önnur efni í skaðlegu magni.

Afleiðingar þess að nota ólögleg lyf geta verið alvarlegar. Sú virkni sem reiknað var með er að öllum líkindum ekki til staðar og notkun þeirra geta fylgt óvænt heilsutengd vandamál, þar á meðal hættulegar milliverkanir við önnur lyf.

Yfirvöld hafa greint hundruð falskra Facebooksíðna, auglýsinga og sölusíðna, sem margar hverjar eru hýstar utan EES svæðisins. Á sumum svikasíðum og auglýsingum á samfélagsmiðlum eru opinber merki lyfjayfirvalda misnotuð og birtar falskar umsagnir til að villa um fyrir neytendum. Lyfjayfirvöld í Evrópu fylgjast grannt með ólöglegum birgjum. Aðgerðir í baráttunni við fölsuð lyf byggja á samvinnu löggæsluaðila og alþjóðlegra samstarfsaðila þvert á landamæri, og felast m.a. í fyrirskipun á innköllun hinna ólöglegu lyfja og lokun vefsíðna.

GLP-1 viðtakaörvar eru lyfseðilsskyld lyf sem eru notuð við alvarlegum sjúkdómum eins og sykursýki og offitu. Þá og því aðeins skal nota slík lyf að þau séu fengin í löglegu apóteki gegn ávísun læknis að undangengnu samtali við lækni. Þau sem telja sig þurfa á meðferð með GLP-1 viðtakaörva að halda ættu að ráðfæra sig við lækni en leita ekki óhefðbundinna leiða.

Mikilvægt er að kaupa aðeins lyfseðilsskyld lyf af apótekum eða netverslunum þeirra. Auðvelt er að sannreyna að treysta megi netverslun með lyf en tæmandi lista yfir lögmæt netapótek er að finna á vef Lyfjastofnunar. Hafa skal hafa eftirfarandi í huga þegar lyf eru keypt á netinu:

  • Leita skal að sameiginlega kennimerkinu á vefsíðu sem býður lyf til sölu á netinu.
  • Þegar smellt er á sameiginlega kennimerkið áttu að flytjast yfir á vef Lyfjastofnunar þar sem finna má lista yfir þau apótek sem hafa heimild til netverslunar með lyf. Öll lyfjamálayfirvöld EES-ríkja birta sambærilegan lista.
  • Kannaðu hvort sú netverslun sem þú hyggst eiga viðskipti við sé sannanlega að finna á listanum. Aðeins lögmætar netverslanir með lyf er að finna á listanum.
  • Sé netverslunin á listanum er óhætt að kaupa lyfin. Aldrei skal kaupa lyf á netinu af netverslun sem birtir ekki sameiginlega kennimerkið.

Atriði sem gefa til kynna að lyf gæti verið ólöglegt

Lyf er líklega ólöglegt ef:

  • það er auglýst sem „staðfest“ af þarlendu yfirvaldi eða birt er merki lyfjastofnunar þess lands sem auglýsingin beinist að, eða merki EMA
  • það er selt í gegnum óopinberar vefsíður eða samfélagsmiðla
  • það er sagt vera betra en samþykkt lyf, án vísindalegra sannana
  • það er ekki fáanlegt í viðurkenndum apótekum eða hjá heilbrigðisstarfsmönnum
  • vefsíðan sem býður það til sölu hefur ekki birt sameiginlegt kennimerki ESB eða er ekki skráð á lista lögmætra netapóteka í því landi sem söluherferðin beinist að

Mikilvægar upplýsingar fyrir lyfjanotendur og aðstandendur þeirra

  • Ólögleg lyf eru í auknum mæli auglýst til sölu á sviksamlegum vefsíðum og samfélagsmiðlum í löndum EES. Til þess að villa um fyrir neytendum er oft notast við falskar umsagnir eða ósannar staðhæfingar.
  • Engin trygging er fyrir því að falsað lyf innihaldi virkt efni í því magni sem auglýst er, og þar að auki getur það innihaldið önnur efni í skaðlegu magni
  • Ólögleg lyf geta stefnt heilsu og jafnvel lífi notenda í hættu. Viðkomandi fær ekki þá meðferð sem hann reiknaði með, alvarlegar og óvæntar aukaverkanir geta gert vart við sig og notkun slíkra lyfja getur haft í för með sér hættulegar milliverkanir við önnur lyf
  • Á vef Lyfjastofnunar er að finna lista yfir lögmæt netapótek og sambærilegan lista er að finna á vefsíðum lögmætra yfirvalda annarra landa
  • EMA og Lyfjastofnun mæla aldrei með eða auglýsa ákveðnar vörur eða vörumerki. Allar staðhæfingar sem gefa annað til kynna eru rangar.
  • Gakktu ávallt úr skugga um að vefverslun sem býður lyf til sölu, sé lögmæt með því að skoða lista Lyfjastofnunar, EMA eða yfirvalda í því landi sem um ræðir. Þetta á sérstaklega við ef verslunin býður vörur til sölu sem sagt er að lyfjayfirvöld hafi mælt með.
  • Sala lyfseðilsskyldra lyfja í gegnum netið er heimil á Íslandi en það sama á ekki við um öll lönd í Evrópu. Þegar um lyfseðilsskyld lyf er að ræða ætti alltaf að útvega ávísun frá heilbrigðisstarfsfólki og kaupa lyfið hjá lögmætu apóteki.
  • Tilkynnið grunsamlegar vefverslanir, auglýsingar eða lyf til Lyfjastofnunar með því að fylla út "Hafa samband" formið á vef Lyfjastofnunar og velja flokkinn "annað"
Síðast uppfært: 3. september 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat