Á morgun, 18. desember, tekur Lyfjastofnun í notkun nýjan gagnagrunn um tilkynntar aukaverkanir – Hava kerfið. Frá og með þeim tíma verður hægt að tilkynna grun um aukaverkanir beint inn í kerfið. Tilkynnandi auðkennir sig með rafrænum skilríkjum og skráir síðan þær upplýsingar sem beðið er um.
Mikilvægur áfangi
Tilkynningar vegna gruns um aukaverkanir lyfja skipta miklu máli því þannig berast mikilvægar upplýsingar um áhrif og verkun lyfs eftir að það fer í almenna notkun. T.d. upplýsingar um aukaverkanir sem hugsanlega komu ekki fram í klínískum rannsóknum en gera vart við sig í stærra þýði.
Til að tilkynningarnar gagnist sem best til skráningar og úrvinnslu fyrir sérfræðingana sem meta gögnin sem berast, skiptir miklu máli að kerfið þar sem haldið er utan um þau sé skilvirkt. Enn fremur að leit að þeim gögnum sem þörf er á hverju sinni sé fljótvirk og bjóði upp á marga leitarmöguleika. Því hefur um langt skeið staðið til að finna öflugra kerfi en það sem verið hefur í notkun um árabil.
Hava-kerfið sem er finnskt að uppruna mun bæta til muna alla umsýslu með aukaverkanatilkynningar hjá Lyfjastofnun, og með því mun fást enn betri yfirsýn yfir þær tilkynningar sem borist hafa stofnuninni. Hava verður til að byrja með grunnur fyrir mannalyf, en á næsta ári er stefnt að því að taka í notkun tilkynningaform fyrir dýralyf.
Mikil vinna hefur farið fram síðustu vikur og mánuði við að færa gögn inn í kerfið og prófa virkni þess. Mikilvægum áfanga verður náð með því að taka það í notkun.
Vakni einhverjar spurningar varðandi aukaverkanatilkynningar er hægt að hafa samband í gegnum vef Lyfjastofnunar