Varað við fölsuðum OxyContin töflum

Fölsuðu töflurnar líkjast mjög OxyContin 80 mg. Töflurnar sem efnagreindar hafa verið komu frá Norðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu

Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands bárust nýlega til greiningar töflur sem líktust lyfinu OxyContin 80 mg töflum í útliti. Að efnagreiningu lokinni er ljóst að þær innihalda ekki oxýkódon, sem er virka efnið í OxyContin.

Ekkert oxýkódon en ýmis efni sem geta verið varasöm

Fölsuðu töflurnar sem líkjast OxyContin 80 mg innihalda ekki oxýkódon, heldur parasetamól, koffín, kódein, klónazepam, bíperíden og ketórólak. Töflurnar sem greindar voru komu frá Norðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu.

Líkjast mjög OxyContin 80 mg

Töflurnar líkjast mjög löglegum OxyContin 80 mg töflum. Þær eru stimplaðar með ”OC” og ”80”. Fölsuðu töflurnar eru hins vegar þykkari en þær löglegu, og filmuhúðin er lausari í sér.

Eindregið varað við töflum af þessu tagi

Efnin sem greind hafa verið í fölsuðu töflunum eru sum hver notuð í lyfjum sem gefin eru við miklum verkjum, önnur við Parkinsonsveiki, enn önnur við flogaveiki. Ekki er ljóst hver samverkan efnanna í fölsuðu töflunum gæti orðið, áhrifin gætu orðið ófyrirsjáanleg og valdið alvarlegum heilsufarsáhrifum.

Þó þykir rétt að benda á að ef parasetamól er tekið í miklu magni er hætta á lifrarskemmdum. Þá geta bæði klónazepam og kódein valdið öndunarbælingu og sljóleika, og ef þau eru notuð samhliða geta þessi áhrif magnast. Bíperíden getur valdið ruglingi, sjóntruflunum og jafnvel ranghugmyndum, við mikla ofskömmtun er hætta á losti vegna hjartaáfalls og öndunarstöðvunar. Bent er á að naloxón (Nyxoid) nefúði vinnur ekki gegn ofskömmtun af þessum efnum.

Ávallt skal hringja í Neyðarlínu vegna gruns um ofskömmtun.

Ef grunur er um ofskömmtun ópíóíða skal gefa naloxón (Nyxoid nefúða) og alltaf skal hringja í Neyðarlínu – 112 – eftir að naloxón hefur verið gefið.

Viðvörunin er send út á vegum starfshóps um samræmingu gagna og viðvaranir við fíkniefnafaraldri.

Tilkynning á vef Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði

Síðast uppfært: 16. júlí 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat