Varist kaup á ólöglegum lyfjum og ólögmætum fegrunarmeðferðum

Lyfjastofnun ítrekar mikilvægi varkárni við kaup á lyfjum, lækningatækjum og vali á aðilum sem veita fegrunarmeðferðir. Tilefni þessarar áminningar eru nýlegar tilkynningar frá embætti landlæknis og bresku heilbrigðisstofnuninni UKHSA um alvarlegar eitranir sem tengjast ólögmætri notkun bótúlíneiturs í fegrunarmeðferðum. 

Alvarlegar eitranir og tilkynning aukaverkana

Á undanförnum þremur mánuðum hafa tæplega 40 tilvik eitrana vegna notkunar á bótúlín-lyfjum verið staðfest í Bretlandi þar sem slík lyf voru notuð í fegrunarmeðferðum á snyrtistofum. Hafa 22 einstaklingar þurft sjúkrahúsinnlögn, þar af sjö á gjörgæslu, vegna eitrunareinkenna sem voru helst; óskýrt tal, erfiðleikar við að kyngja og öndunarerfiðleikar. Þó bótúlíneitranir séu ekki algengar geta þær verið lífshættulegar. 

Lyfjastofnun hvetur alla sem upplifa aukaverkanir eða einkenni sem gætu tengst notkun bótúlíneiturs eða annarra lyfja til að leita læknisaðstoðar og tilkynna slíkt án tafar. Nánari upplýsingar um mikilvægi tilkynninga og hvernig tilkynna skal aukaverkanir má finna á vef Lyfjastofnunar. 

Ólöglegur innflutningur og notkun á bótulínumeitri á Íslandi 
Lyfjastofnun ítrekar að bótulíneitur er virkt efni í viðurkenndum lyfjum sem eru lögleg á markaði á Íslandi og notuð samkvæmt ströngum skilyrðum. Ólögleg notkun slíkra efna getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu einstaklinga. Einungis læknar með viðeigandi réttindi og sérfræðikunnáttu í þessari meðferð og notkun þess búnaðar sem hún krefst mega gefa lyfið. Lyf á íslenskum markaði sem innihalda bótúlíneitur eru Botox, Botox (Abacus Medicine), Vistabel og Xeomin en aðeins hluti þeirra er með samþykkta notkun gegn hrukkum.  

Falsað lyf er eftirlíking sem yfirleitt er reynt sem mest að láta líkjast ósviknu lyfi. Þetta geta meðal annars verið lyf sem hefur verið umpakkað með ólögmætum hætti, stolin lyf sem síðan eru seld ólöglega inn í löglegar dreifingar- og smásöluleiðir, lyf sem innihalda lélegt hráefni eða í röngum skömmtum og lyf með innihaldsefni sem eru ekki þau sem eiga að vera. Fölsuð lyf geta valdið notendum alvarlegum skaða og því mikilvægt að tilkynna slíkt. 

Lyfjastofnun minnir á að kaup á lyfjum frá ólöglegum aðilum eða á netinu þar sem gæðakröfur er ekki uppfylltar geta haft alvarlegar afleiðingar. Fölsuð lyf geta valdið skaða og jafnvel verið lífshættuleg. Mikilvægt er að neytendur hafi framangreint í huga og versli eingöngu við viðurkennda aðila. Allar lögmætar netverslanir lyfja í Evrópu birta sameiginlegt evrópskt merki netverslana á vef sínum. Tilgangur merkisins er að sýna neytendum að um lögmæta verslun með lyf er að ræða. Um innflutning einstaklinga á lyfjum gilda ákveðnar reglur sem nánar er greint frá á vef Lyfjastofnunar og er ólöglegur innflutningur litinn alvarlegum augum. 

Sameiginlegt kennimerki lögmætra vefverslana með lyf 

Í þessu samhengi minnir Lyfjastofnun einnig á mikilvægi þess að meðferð með fylliefnum sé einungis veitt af viðurkenndum með löglegum efnum sem framleidd eru sem lækningatæki og eru CE merkt. Nánari upplýsingar um fylliefni á vef Lyfjastofnunar.

Hvað á að gera ef grunur vaknar? 
Ef grunur vaknar um ólögleg lyf, ólögleg lækningatæki eða ólögmæta meðferð, skal tilkynna það til Lyfjastofnunar með því að senda tölvupóst á [email protected]

Lyfjastofnun hvetur almenning til að sýna varkárni og tryggja að lyf, lækningatæki og meðferðir sem þeir nýta sér séu í samræmi við lög og reglur. Öryggi og heilsa neytenda er ávallt í forgangi. 

Síðast uppfært: 1. ágúst 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat