Forseti Bandaríkjanna tengdi notkun parasetamóls á meðgöngu við einhverfu á blaðamannafundi í gærkvöldi. Hvatti hann barnshafandi konur til að sniðganga lyfið
EMA segir engin ný gögn gefa tengsl til kynna
Af þessu tilefni vill Lyfjastofnun Evrópu (EMA) taka fram að engin ný gögn gefi ástæðu til að ætla að tengsl séu milli notkunar parasetamóls og einhverfu. Á vegum stofnunarinnar fór árið 2019 fram ítarlegt endurmat á fyrirliggjandi gögnum þar sem skoðaður var taugaþroski barna sem höfðu verið útsett fyrir parasetamóli í móðurkviði. Niðurstaða sérfræðinga EMA var sú að ekkert benti til að tengsl væru þarna á milli.
Yfirlæknir EMA segir því ráðleggingar varðandi lyfið óbreyttar, barnshafandi konum er óhætt að nota parasetamól ef þörf krefur. En eins og með öll lyf sem tekin eru við bráðum lasleika, skyldi alltaf nota eins lítinn skammt og hægt er, í sem skemmstan tíma, og sem sjaldnast.
Parasetamól fyrst á markað um miðja síðustu öld
Parasetamól kom fyrst á markað í Bandaríkjunum árið 1950 og í Bretlandi árið 1956. Elsta lyfið með virka efninu parasetamóli sem nú er á markaði á Íslandi var tekið í notkun árið 1975. Hér eins og víða annars staðar er það nú ýmist ávísunarskylt eða selt sem lausasölulyf, og fer það eftir styrk virka efnisins og magni í pakkningu hvort heldur er.
Stöðugt fylgst með öryggi
Eins og á við um öll lyf er stöðugt fylgst með öryggi parasetamóls, áhætta vegin á móti ávinningi. Ný gögn um virkni og öryggi parasetmóllyfja eru skoðuð grannt og ráðleggingar og leiðbeiningar uppfærðar ef þörf krefur; sem dæmi má taka algengt lausasölulyf sem inniheldur virka efnið parasetamól Það hefur verið á markaði á Íslandi síðan 1975 en fylgiseðillinn var síðast uppfærður í apríl á þessu ári, 2025.
Heilbrigðisstarfsfólk veitir ráðleggingar
Ef spurningar vakna um lyfjanotkun á meðgöngu ætti að leita ráða hjá lækni, hjúkrunarfræðingi eða lyfjafræðingi.