Viðmiðunarreglur um góða starfshætti í lyfjabúðum

Viðmiðunarreglur Lyfjastofnunar innihalda upplýsingar um góða starfshætti við afhendingu lyfja í lyfjabúðum og eru leiðbeinandi

Á dögunum voru gefnar út viðmiðunarreglur um góða starfshætti í apótekum. Í þeim er m.a. vikið að almennum kröfum til lyfjaafhendingar og fjallað um áherslur Lyfjastofnunar, með öryggi lyfjanotenda að leiðarljósi. Samkvæmt 46. gr. reglugerðar um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir nr. 1340/2022 skal Lyfjastofnun setja viðmiðunarreglur um góða starfshætti í lyfjabúðum og fjarsölu lyfja.

Almennar kröfur til lyfjaafhendingar

Lyf eru ekki almenn neysluvara og röng notkun þeirra eða geymsla getur valdið notendum lyfja miklu tjóni. Sú ráðgjöf sem fer fram í lyfjabúðum og útibúum þeirra hefur það markmið að stuðla að réttri og ábyrgri notkun lyfja og takmarka þannig áhættu sem skapast getur við ranga notkun.

Upplýsingagjöf og ráðgjöf lyfjafræðinga sem starfa í lyfjabúðum er mikilvæg til að stuðla að réttri notkun og geymslu lyfja.

Við afgreiðslu og afhendingu lyfja frá lyfjabúðum og lyfjaútibúum verður að leita allra leiða, með ráðgjöf og leiðbeiningum til að tryggja að notendur lyfja séu meðvitaðir um rétta og örugga notkun lyfsins til að tryggja árangursríka lyfjameðferð.

Algengt er að þjálfaðir starfsmenn afhendi lyf í umboði lyfjafræðings en eingöngu lyfjafræðingar, einstaklingar með BS-gráðu í lyfjafræði eða lyfjatæknar hafa heimild til að veita upplýsingar og ráðgjöf um lyf. Þjálfuðum starfsmönnum lyfjabúða er þó heimilt að aðstoða við val lausasölulyfja og veita þær upplýsingar sem koma fram á pakkningum og í fylgiseðlum þeirra.

Í reglugerð um lyfsöluleyfi og lyfjabúðir er að finna tvær meginreglur um hvernig lyf skulu almennt afgreidd og afhent í lyfjabúð.

  1. Almennt skal sýna lyfjapakkningar. Með því er takmörkuð sú áhætta að afhent sé rangt lyf. Jafnframt stuðlar það að auknum samskiptum og fræðslu um afhent lyf.
  2. Almennt skal veita ráðgjöf. Spyrja skal hvort móttakandi þekki lyfin og hvort hann hafi einhverjar sérstakar fyrirspurnir um notkun eða geymslu lyfjanna. Að frumkvæði lyfjafræðings skal veita nauðsynlegar upplýsingar. Lyfjafræðingur getur falið einstaklingi með BS-gráðu í lyfjafræði eða lyfjatækni það hlutverk að veita þessar upplýsingar en ábyrgðin á ráðgjöfinni og að hún hafi farið fram hvílir á þeim lyfjafræðingi sem afgreiddi lyfið.

Áherslur Lyfjastofnunar

Að auki við hinar almennu kröfur sem eiga við um afhendingu allra lyfja telur Lyfjastofnun rétt að lögð sé sérstök áhersla á tiltekin sjónarmið með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Í þessari fyrstu útgáfu viðmiðunarreglnanna leggur Lyfjastofnun sérstaka áherslu á afhendingu lyfja sem ætluð eru börnum, lyfja sem eru með lækningatæki sem samþættan hluta, undanþágulyfja, ávana- og fíknilyfja, lyfja sem fylgja öryggisupplýsingar og skammtaðra lyfja.

Nánari upplýsingar er að finna í útgefnum viðmiðunarreglum um góða starfshætti í lyfjabúðum.

Síðast uppfært: 14. mars 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat