Rauður varúðarþríhyrningur á pakkningum lyfja

Hvað þýðir það að lyfjapakkning sé merkt rauðum varúðarþríhyrning og hvar er hægt að finna upplýsingar um hann? Þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af áhrifum lyfja ef þau eru ekki merkt?

Rauðan varúðarþríhyrning má finna á pakkningum ákveðinna lyfja og er honum ætlað að gefa til kynna að lyfið geti valdið slævingu sem hefur áhrif á hæfni til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Þau lyf sem merkt eru rauðum þríhyrningi eru af ýmsu tagi en m.a. má nefna róandi lyf, ópíóíða, ákveðin verkjalyf, ofnæmislyf og ógleðilyf svo dæmi séu nefnd.

  • Ópíóíðar  
  • Ákveðin verkjalyf  
  • Flogaveikilyf  
  • Kvíðastillandi lyf  
  • Róandi lyf  
  • Hóstastillandi lyf  
  • Ferðaveikilyf  
  • Ógleðilyf  
  • Ofnæmislyf  
  • Mígrenislyf  
  • Ákveðin þyngdarstjórnunarlyf  
  • ADHD lyf  
  • Öll lyf sem innihalda meira en 10% alkóhól  
  • Svefnlyf   

Lyfjastofnun gaf út og viðheldur lista yfir þau lyf sem skal merkja með þríhyrningi hérlendis. Markaðsleyfishöfum og umboðsmönnum er skylt að sjá til þess að lyf sem eru á listanum séu merkt viðvörunarþríhyrningi. Ef hann er ekki prentaður á umbúðir lyfsins þarf að merkja pakkningarnar sérstaklega með límmiða.

Hafa lyf sem ekki eru merkt með þessum þríhyrningi engin áhrif á hæfni notandans?

Þríhyrningurinn er, eins og nafnið gefur til kynna, notaður til viðvörunar en mikilvægt er að hver og einn leggi mat á hæfni sína eftir inntöku lyfja þrátt fyrir að viðkomandi lyf sé ekki sérstaklega merkt.

Áhrif lyfja eru einstaklingsbundin og því gætu lyf sem ekki eru merkt með varúðarþríhyrningi haft áhrif á akstursfærni þrátt fyrir að merkingu um slíkt sé ekki að finna á pakkningu lyfsins. 

Alltaf ætti að lesa fylgiseðil fyrir notkun lyfja því þar koma fram upplýsingar um varúðarráðstafanir hvort sem lyfið er merkt með varúðarþríhyrningi eða ekki.

Til dæmis ætti að hafa eftirfarandi í huga:

  • Augdropar sem víkka sjáöldur geta skert sjón tímabundið
  • Blóðþrýstingslyf gætu valdið svima, óþægindum og lengri viðbragðstíma
  • Blóðsykurslyf geta óbeint hægt á viðbrögðum og valdið svima ef blóðsykur lækkar of hratt
  • Lyf við þunglyndi og öðrum geðkvillum hafa áhrif á miðtaugakerfið og geta því gert notandann syfjaðan og hægt á viðbrögðum
  • Ýmis jurtalyf valda syfju, sérstaklega þau sem innihalda valerian
  • Öll lyf gætu haft áhrif sem ekki var búist við, sérstaklega í byrjun meðferðar

Lyf.is - sýnileiki á netinu

Frá og með 8. júlí 2025 eru öll markaðssett lyf sem merkja á með rauðum varúðarþríhyrningi sérmerkt á vef sérlyfjaskrár, lyf.is. Þar má sjá undir nafni, styrk og lyfjaformi lyfsins hvort það eigi að vera merkt á þennan hátt. Þessar upplýsingar eru einnig sýnilegar áður en lyfjaspjaldið sjálft er opnað í leitarglugganum.

Að auki hefur verið bætt við möguleika í leitarvél vefsins til að sía sérstaklega eftir þeim markaðssettu lyfjum sem falla undir þessar merkingar. 

Hvernig lítur þríhyrningurinn út og hvar er hann staðsettur?

Varúðarþríhyrningurinn á að vera rauður á hvítum bakgrunni með odd sem vísar upp en stærðin er breytileg eftir plássinu sem hann hefur á pakkningu. Yfirleitt eru hliðar hans um 10 mm langar og breidd þeirra 2 mm. 

Í þeim tilfellum sem varúðarþríhyrningurinn er ekki hluti af áletrun pakkningar en lyfið á sannarlega að vera merkt hefur verið gefin heimild til að merkja pakkninguna með límmiða sem ber þríhyrninginn.  

Eru öll lyf sem falla undir þessar reglur pottþétt merkt?

Nýverið var farið í átak þar sem markaðsleyfishafar voru minntir á skyldur sínar til að merkja ákveðin lyf með rauðum varúðarþríhyrning. Þeim var gefinn frestur til janúar 2026 til að framfylgja þessum reglum og því gæti verið að pakkningar sem ættu að vera merktar séu það í einhverjum tilfellum ekki.

Þar sem undanþágulyf eru ekki markaðssett á sama hátt og önnur lyf hérlendis er ekki hægt að ganga út frá því að þau séu merkt íslenskum leiðbeiningum. Því er afar mikilvægt að sjúklingar séu upplýstir um eiginleika þeirra, þ.m.t. ef þau geta haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla. Leitið því ráða hjá lækni eða lyfjafræðingi ef vafi leikur á því hvort lyfið geti valdið áhrifum á aksturseiginleika.

Rauði þríhyrningurinn er notaður í Danmörku, Noregi og Finnlandi og telst því ekki alþjóðlegt tákn. Þess vegna gætu viðvaranir á pakkningum lyfja sem keypt eru erlendis verið frábrugðnar viðvörunum á íslenskum pakkningum lyfja. 

Mismunandi kröfur eru á milli landa um hvaða lyf skuli merkja með varúðarþríhyrningi. Vegna smæðar markaðarins deilir Ísland oft pakkningum með einhverju Norðurlandanna. Þar af leiðandi getur það komið fyrir að lyf, sem getur haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla, sé á markaði á Íslandi án þess að vera merkt rauðum varúðarþríhyrningi. Þetta ástand er þó tímabundið þar sem að skylt verður að merkja þessi lyf með límmiða með rauðum varúðarþríhyrningi í síðasta lagi í janúar 2026.

Alltaf er því mikilvægt að muna að leita upplýsinga og lesa sér til um eigin lyf áður en notkun hefst.

Síðast uppfært: 11. september 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat