Lyfjastofnun ber samkvæmt 29. grein lyfjalaga að taka saman og birta lista yfir nauðsynleg lyf ætluð mönnum. Í lögunum er annars vegar kveðið á um að markaðsleyfishafa beri skylda til að eiga tiltækar nægar birgðir nauðsynlegra lyfja sem hafa verið markaðssett, hins vegar um það hlutverk Lyfjastofnunar að skilgreina í samráði við þá sem málið varðar, hvaða lyf teljist nauðsynleg.
Fyrsti listinn um nauðsynleg lyf var birtur í október 2022 en hann hefur síðan verið uppfærður reglulega, m.a. með hliðsjón af sambærileglum lista Lyfjastofnunar Evrópu (EMA), Union list of critical medicines (ULCM). Þeim lista er ætlað að vera viðmiðun og til stuðnings aðildarstofnunum.
Nýjustu útgáfu listans má sækja með tengli hér fyrir neðan. Listinn var uppfærður í september 2025 og hefur að geyma lyf í 278 mismunandi ATC flokum, alls 962 lyf. Dæmi um lyfjaflokka (ATC) eru hjarta- og segavarnarlyf, öndunarfæralyf, sýklalyf, lyf við sykursýki og lyf gegn ofnæmi. Einnig geðlyf, svæfingarlyf, æxlishemjandi lyf auk innrennslislyfja á borð við blóðskilunar- og næringarvökva.
Lista yfir nauðsynleg má einnig nálgast í sérlyfjaskrá, og viðeigandi merkingu má sjá á lyfjaspjaldi hvers lyfs sem á listanum er.