Skorti á markaðssettu Magnesia hægðalyfi lýkur í janúar 2026 

Magnesia DAK lausasölulyf verður markaðsett 1. janúar 2026

Magnesia Medic lausasölulyf hefur verið ófáanlegt frá í byrjun febrúar 2023. Síðan þá hefur undanþágulyfið Magnesia DAK verið fáanlegt. Fyrr á þessu ári fékk lyfið Magnesia DAK markaðsleyfi á Íslandi sem lausasölulyf og 1. janúar 2026 verður lyfið markaðssett, þ.e. birt í lyfjaverðskrá og sérlyfjaskrá.

Sama dag, 1. janúar 2026 mun lausasölulyfið Magnesia Medic fara af markaði í samræmi við ósk markaðsleyfishafa/umboðsaðila lyfsins. Því verður ekki hægt að fletta lyfinu upp í lyfjaverðskrá, sérlyfjaskra.is/lyf.is eða í ávísanakerfum lækna frá áramótum. Útgefin lyfjaskírteini frá Sjúkratryggingum Íslands fyrir Magnesia Medic munu þó gilda áfram fyrir Magnesia DAK.

Ráð til lyfjafræðinga í apótekum

Lyfjastofnun minnir lyfjafræðinga á heimild þeirra til að breyta lyfjaávísun að því marki að lyfjameðferð haldist óbreytt og með tilliti til fáanlegra pakkningastærða. Heimildin er skv. 14. gr. reglugerðar nr. 740/2020 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja.  Því er lyfjafræðingum heimilt að breyta lyfjaávísun læknis fyrir Magnesia Medic og Magnesia DAK undanþágulyf í skráða lyfið Magnesia DAK, svo framarlega að lyfjameðferð haldist óbreytt. Lyfjafræðingur skal upplýsa sjúklinga um þær breytingar sem gerðar eru á lyfjaávísun. 

Heimild lyfjafræðinga til útskipta yfir í undanþágulyfið Magnesia DAK mun gilda til 7. janúar nk. og mun nýja skráða lyfið einnig falla undir útskiptin til að tryggja ávísun lækna á lyfið.  Umsóknir lækna um heimild til að ávísa undanþágulyfinu Magnesia DAK munu einnig verða samþykktar hjá Lyfjastofnun til 7. janúar 2026. Er það gert til að tryggja dreifingu á Magnesia DAK lausasölulyfinu til lyfjabúða á landsbyggðinni og fyrirbyggja þannig vandræði lyfjanotenda þrátt fyrir að Magnesia DAK lausasölulyf komi á markað 1. janúar 2026.  

Mikilvægt er að lyfjafræðingar nýti þau úrræði sem til eru til að koma í veg fyrir óþægindi lyfjanotenda vegna þessara breytinga.  

Ráð til lækna

Ávísanir lækna á Magnesia DAK undanþágulyfið munu verða samþykktar hjá Lyfjastofnun til 7. janúar 2026. Ástæðan fyrir því að samþykki Lyfjastofnunar fæst fram yfir 1. janúar er til að tryggja að Magnesia DAK undanþágulyfið fáist afgreitt í apótekum á landsbyggðinni, komi til þess að dreifing á Magnesia DAK lausasölulyfinu til staða fjarri höfuðborgarsvæðinu tefjist.  Með þessu er reynt að fyrirbyggja vandræði lyfjanotenda.  

Lyfjastofnun hvetur lækna til að ávísa markaðsetta lyfinu Magnesia DAK frá og með 1. janúar 2026. Lyfjafræðingar í apótekum munu hafa heimild til að breyta slíkri lyfjaávísun í sambærilegt undanþágulyf til 7. janúar ef skráða lyfið hefur ekki boristí viðkomandi  apótek. Lyfjastofnun vill einnig vekja athygli lækna á að frá og með 7. janúar 2026 mun stofnunin synja undanþágulyfjaávísunum lækna fyrir undanþágulyfið Magnesia DAK, nema í rökstuðningi læknis komi fram hvers vegna  ekki er hægt að nota markaðssett lyf.  

Síðast uppfært: 16. desember 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat