Grannt fylgst með framboði lyfja vegna COVID-19 faraldursins

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og aðildarstofnanir hennar vinna að því að fá yfirsýn yfir með hvaða hætti COVID-19 sýkingin gæti orsakað lyfjaskort í Evrópu. Engar spurnir hafa hingað til borist af skorti sem rekja má til faraldursins, en með aukinni útbreiðslu hans er ekki hægt að útiloka að svo verði.

Stýrihópur vegna hættu á lyfjaskorti

Á vegum Evrópusambandsins hefur verið skipulagður fyrsti fundur sérstaks stýrihóps til að takast á við lyfjaskort sem orðið gæti vegna meiriháttar áfalla, eins og COVID-19 faraldursins.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fer fyrir stýrihópnum, en í honum sitja fulltrúar frá Evrópuráðinu, forstjóra evrópskra lyfjastofnana (HMA), EMA, formenn samhæfingarhópa EMA (CMDh og CMDv), sem og sérfræðingar í samskiptum á áfallatímum.

Stýrihópurinn mun samhæfa aðgerðir á öllu EES svæðinu blasi við hætta á lyfjaskorti, t.d. vegna tímabundinnar lokunar lyfjafyrirtækja á svæðum þar sem COVID-19 herjar á, eða vegna þess að settar hafi verið hömlur á flutninga. Hópnum er einnig ætlað að tryggja að öruggar upplýsingar berist til almennings jafnt sem heilbrigðisstarfsfólks um hugsanlega hættu og til hvaða ráða verður gripið.

Lyfjafyrirtæki bera ábyrgð

Þótt stýrihópurinn hafi hafið störf hefur EMA undirstrikað að lyfjafyrirtækin beri ábyrgð á að framboð lyfja haldist stöðugt og að ekki komi til skorts. Til þess þurfi þau að gera viðeigandi ráðstafanir, svo sem að eiga varabirgðir lyfja og efna til lyfjagerðar.

EMA kallar eftir upplýsingum

EMA hefur farið fram á við lyfjafyrirtæki að þau séu á varðbergi gagnvart hugsanlegum áhrifum aðgerða stjórnvalda vegna faraldursins, bæði í Kína og annars staðar, og hvaða áhrif slíkar aðgerðir geti haft á framboð lyfja á Evrópska efnahagssvæðinu. EMA minnir jafnframt á þær skyldur lyfjafyrirtækja að tilkynna fyrirsjáanlegan lyfjaskort til yfirvalda á hverjum stað.

EMA rýnir nú einnig upplýsingar um framleiðslu miðlægt skráðra lyfja í því skyni að geta séð með fyrirvara hvaða lyf gæti helst skort, og setja þá í forgang að finna leiðir til að koma í veg fyrir slíkt.

COVID-19 ekki valdið skorti hingað til

Samkvæmt upplýsingum lyfjafyrirtækja hefur faraldurinn ekki valdið framleiðslutöfum eða skertu framboði hingað til, og telja þau að áhrif hans verði ekki mikil í nánustu framtíð. Þetta gæti hins vegar breyst standi lokanir yfir til lengri tíma, eða ef hömlur verða settar á flutning milli landa.

Upplýsingar um faraldurinn

· Sóttvarnamiðstöð Evrópu miðlar upplýsingum um þróun COVID-19 faraldursins eftir því sem þær liggja fyrir hverju sinni

· Upplýsingar um aðgerðir Evrópusambandsins vegna COVID-19 má finna á vef Framkvæmdastjórnar ESB

Frétt EMA um viðbrögð vegna COVID-19

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat