Fyrsta skýrslan um sölu og notkun sýklalyfja fyrir dýr

ESUAvet skýrslan hefur að geyma gögn um sölu og notkun sýklalyfja fyrir dýr í 27 löndum Evrópusambandsins, að viðbættum gögnum frá Íslandi og Noregi

Þetta er fyrsta skýrslan af þessu tagi en sams konar skýrslur mun koma út árlega hér eftir. Gögnin í nýútkominni ESUAvet skýrslu eru frá árinu 2023.

Gögn um sölu 

Í ESB nam sala sýklalyfja fyrir dýr sem haldin eru til manneldis 98% af heildarsölu dýralyfja með sýklalyfjavirkni. Mest seldu sýklalyfin fyrir dýr til manneldis voru pensillín, tetracýklín og súlfónamíð.

Samkvæmt AMEG flokkun um skynsamlega og ábyrga notkun sýklalyfja fyrir dýr, voru um 65% af heildarsölu sýklalyfja fyrir dýr til manneldis, í flokki D (fyrsti valkostur), 29% í flokki C (varkárni), og 6% í flokki B (þegar ekkert annað lyf gagnast). Sýklalyf í A flokki ætti aldrei að gefa dýrum sem haldin eru til manneldis.

Gögn um notkun 

Í skýrslunni er að finna gögn um fjórar helstu tegundir dýra til manneldis á Evrópuvísu: nautgripi, svín, kjúklinga og kalkúna. Dýralæknar gegndu lykilhlutverki við söfnun gagna í 16 landanna, en í 13 löndum komu gögnin frá öðrum aðilum, t.d. apótekum, fóðurverksmiðjum, bændum og smásölum.

Þetta er í fyrsta sinn sem gögnum um notkun lyfja af þessu tagi er safnað á Evrópska efnahagssvæðinu. Margar þjóðir eru enn að setja upp eða bæta kerfi til að safna gögnum og því voru gögn ársins 2023 ekki nógu áreiðanleg til að hægt væri að miðla upplýsingum um umfang sölu og notkunar. Aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að gera gagnaöflun markvissari og nákvæmari þannig að útkoman veiti sem besta yfirsýn yfir notkun sýklalyfja fyrir dýr.

Gögnin í ESUAvet skýrslunum munu gera auðveldara að greina þróun í notkun sýklalyfja fyrir dýr, og gera yfirvöldum þar með kleift að grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda heilsu dýra og manna í Evrópu.

Síðast uppfært: 16. maí 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat