Notkun bólgueyðandi lyfja sem ekki eru sterar í COVID-19 faraldri

Umræða um notkun bólgueyðandi lyfja sem ekki eru sterar (non-steroidal anti-inflammatory drugs, NSAID) hefur verið hávær í frétta- og samfélagsmiðlum.

Bakgrunnur: Nýlega birti Lyfjastofnun frétt um bólgueyðandi lyf og COVID-19. Þar kom m.a. fram að engar haldbærar upplýsingar styðji að notkun NSAID-lyfja fylgi versnandi ástandi sjúklinga með COVID-19. Kórónuveiran 2019 (Sars-CoV2) notar svokallaða angiotensin-converting enzyme 2 (ACE2) viðtaka til að komast inn í frumur1. Vísbendingar eru um að NSAID-lyf auki tjáningu þessa viðtaka. Klínískt mikilvægi þessa er þó ekki vitað, né heldur hversu hratt þetta gerist eða hvort þetta sé skammtaháð. Rannsóknir á þessum hugsanlegu verkunum eru í gangi.

Á þessu stigi þykir ekki ástæða til að hætta notkun NSAID-lyfja hjá einstaklinum sem taka lyfin að staðaldri vegna undirliggjandi stoðkerfisvanda eða gigtarsjúkdóma. Engar breytingar hafa orðið á notkunarleiðbeiningum lyfjanna.

Hvenær þarf að gæta sérstakrar varúðar með notkun NSAID-lyfja hjá sjúklingum með COVID-19?

Aldraðir einstaklingar og einstaklingar með ýmsa undirliggjandi sjúkdóma (s.s. sykursýki, hjartasjúkdóm, háþrýsting og/eða nýrnasjúkdóm) eru í aukinni hættu á að fá alvarleg einkenni COVID-19 sýkist þeir af veirunni2. Gæta þarf sérstakrar varúðar ef NSAID-lyf eru notuð af þessum sjúklingum og skyldu læknar alltaf veita ráð þar um. Jafnframt er mikilvægt að notendur lesi fylgiseðla NSAID-lyfja vandlega og fylgi fyrirmælum og varúðarorðum sem þar koma fram.

Ráðleggingar

Meðferð með verkja- og hitastillandi lyfjum er ætluð til að lina einkenni og bæta líðan einstaklinga með COVID-19. Til að minnka eða forðast aukaverkanir er mælst til eftirfarandi:

  • Parasetamól er fyrsta val í slíkri meðhöndlun eins og á við um allar helstu veirusýkingar. Ekki er þörf á að hætta notkun parasetamóls ef þörf er á viðbótarmeðferð með NSAID-lyfjum.
  • Einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sem krefst meðferðar með ACE-hemlum, angíótensín II hemlum, þvagræsilyfjum eða blóðþynningarlyfjum ættu að forðast notkun NSAID lyfja án samráðs við sinn lækni.
  • Mikilvægt er að vökvainntaka sé næg ef NSAID-lyf eru notuð, sérstaklega í ljósi hálssærinda og sótthita sem fylgja kórónuveirusýkingunni. Bæði þessi einkenni geta leitt til vökvaskorts og auka hættu á aukaverkunum NSAID-lyfja.
  • Alltaf ætti að nota lægstu mögulega skammta í sem skemmstan tíma.  

Heimildir

1. Zhou, P et al.: A pneumonia outbreak associated with a new coronavirus of probable bat origin, Nature, 2020: 579, 270-273

2. Embætti landlæknis og Ríkislögreglustjórinn. Áhættuhópar. Sótt 27. mars 2020 af https://www.covid.is/undirflokkar/ahaettuhopar.

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat