Rauðan varúðarþríhyrning er nú að finna við öll þau lyf í Sérlyfjaskrá sem við á

Þetta er samkvæmt nýju verklagi varðandi rauða varúðarþríhyrninginn. Markaðsleyfishafar hafa tíma til áramóta til að uppfylla kröfur um merkingar á pakkningum

Eins og áður hefur komið fram hefur Lyfjastofnun skerpt á verklagi varðandi merkingar lyfjapakkninga með rauðum varúðarþríhyrningi. Honum er ætlað að gefa til kynna að lyfið geti valdið slævingu sem hefur áhrif á hæfni til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni.

Kominn í sérlyfjaskrá

Lyfjastofnun hefur þegar gefið út lista yfir þau lyf sem merkt eru rauðum varúðarþríhyrningi hérlendis, og nú hefur verið lokið við að merkja þau lyf á vefnum lyf.is (Sérlyfjaskrá) sem við á. Breytingarnar á Sérlyfjaskrá eru þrenns konar:

  • Rauði varúðarþríhyrningurinn birtist í leitarniðurstöðum áður en lyf er valið.
  • Rauði varúðarþríhyrningurinn birtist efst á síðu lyfs undir nafni lyfsins og lyfjaformi.
  • Hægt verður að sía sérstaklega eftir þeim lyfjum sem hafa rauða varúðarþríhyrninginn.

Á pakkningar í síðasta lagi 1. janúar 2026

Markaðsleyfishöfum og umboðsmönnum er skylt að sjá til þess að lyf sem eru á listanum séu merkt rauðum varúðarþríhyrningi. Ef hann er ekki prentaður á umbúðir lyfsins skal merkja pakkningarnar sérstaklega með límmiða.

Ætlast er til að búið sé að uppfylla kröfur um viðbótarmerkingar pakkninga frá og með 1. janúar 2026, en þangað til verður hægt að nálgast þessar upplýsingar í Sérlyfjaskrá.

Mikilvægar upplýsingar í fylgiseðli

Hafa skal í huga að hægt er að nálgast upplýsingar um hugsanleg áhrif lyfja á hæfni til aksturs og notkunar véla í fylgiseðli og því mikilvægt að lesa hann fyrir notkun. Hins vegar skal bent á að áhrif lyfja eru einstaklingsbundin og geta því einhver þeirra haft slævandi áhrif þrátt fyrir að vera ekki sérstaklega merkt. Því ber hverjum og einum að meta eigin hæfni samhliða notkun lyfja.

Síðast uppfært: 8. júlí 2025
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat