Sjúklingar með COVID-19 hvattir til að tilkynna aukaverkanir lyfja

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og aðildarstofnanir hennar hvetja sjúklinga með COVID-19 til að tilkynna aukaverkanir lyfja, hvort heldur þeir eru með staðfestan sjúkdóm eða aðeins grun um COVID-19. Þetta á við um lyf sem kunna að vera gefin við sjúkdómnum sem og lyfjanotkun vegna annarra sjúkdóma.

Í þessu sambandi skal þó minna á að enn eru ekki til nein lyf sem sannreynt hefur verið að gagnist við COVID-19, en í glímunni við sjúkdóminn er þess freistað að nota nýta ýmis lyf sem mögulega gætu slegið á einkenni hans og flýtt fyrir bata.

Tilkynningar sjúklinga mikilvæg viðbót

Þekking á veirunni sem veldur COVID-19 er enn takmörkuð, þar með talin áhrif ýmissa lyfja sem tekin eru á meðan á veikindunum stendur. Því veita tilkynningar um aukaverkanir lyfja í þessu sambandi mikilvægar upplýsingar um öryggi og ávinning þeirra eftir því sem farsóttinni vindur fram. Upplýsingar af því tagi, bæði frá sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki munu bæta við þá þekkingu sem nú er jafnhliða aflað með klínískum rannsóknum.

Það skal undirstrikað að aukaverkanatilkynningar sjúklinga eru mikilvæg viðbót við þær sem heilbrigðisstarfsmenn senda og hafa sent í faraldrinum. Jafnvel þótt um sömu lyf og sams konar aukaverkanir sé að ræða. 

Grunur um aukaverkun er næg forsenda tilkynningar

Sjúklingar jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk geta sent tilkynningu um aukaverkun lyfs, eða grun um aukaverkun lyfs, til Lyfjastofnunar í gegnum gátt á vefnum. Einnig er hægt að tilkynna til framleiðanda lyfsins; upplýsingar um þá leið má finna á fylgiseðli. Sjúklingar geta líka snúið sér til lækna, hjúkrunarfræðinga og lyfjafræðinga, sem munu koma upplýsingunum áleiðis.

 Þegar tilkynnt er um aukaverkun lyfs í tengslum við COVID-19 er mikilvægt að veita eins nákvæmar og greinargóðar upplýsingar og hægt er. Eins og alltaf þegar tilkynnt er um aukaverkanir þarf eftirfarandi upplýsingar:

  • upplýsingar um notandann sem fann fyrir aukaverkun, að minnsta kosti aldur og kyn
  • lýsingu á aukaverkuninni
  • heiti lyfsins (eða virku efnis þess) sem talið er hafa valdið aukaverkun
  • hver tilkynnir aukaverkunina (t.d. sjúklingur, aðstandandi eða heilbrigðisstarfsmaður)

Þegar tilkynnt er um grun um aukaverkun lyfs hjá sjúklingum með COVID-19 er æskilegt að eftirfarandi upplýsingar komi einnig fram, til að hægt sé að meta orsakasambandið eftir fremsta megni:

  • hvort COVID-19 sýkingin var staðfest með prófi, eða hvort grunur er um sýkingu vegna einkenna
  • hversu hár skammtur af lyfinu var/er tekinn og hversu lengi notkun þess varði/hefur varað
  • lotunúmer lyfsins sem finna má á pakkningu
  • hvort og þá hvaða lyf eru tekin samhliða því sem talið er hafa valdið aukaverkun, þar með talin lyf sem keypt eru án lyfseðils, náttúrulyf og getnaðarvarnir
  • annar heilsufarsvandi sem notandi kann að glíma við

 

Sjúklingar sem hafa áhyggjur af hugsanlegum aukaverkunum lyfs ættu að ræða við lækni, hjúkrunarfræðing eða lyfjafræðing í apóteki.

Almennar upplýsingar um aukaverkanir lyfja

Frétt EMA um tilkynningu aukaverkana í COVID-19

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat