Sjá nýrri frétt um umboð til afhendingar lyfja (28. september 2020).
Þann 10. mars næstkomandi ganga í gildi breytingar sem varða afhendingu lyfja í apótekum. Eftir það verður einungis heimilt að afhenda lyf eiganda lyfjaávísunar, eða þeim sem hefur ótvírætt umboð hans til að fá þau afhent. Framvísa þarf persónuskilríkjum hvort sem um ræðir eiganda eða umboðsmann.
Skriflegt umboð - að gefnu tilefni
Upp hafa komið tilvik þar sem lyf hafa verið leyst út af öðrum en eiganda lyfjaávísunar, án heimildar hans. Því er að mati Lyfjastofnunar óhjákvæmilegt að skerpa á túlkun og framkvæmd ákvæðis í 18. grein reglugerðar nr. 1266/2017 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja, þar sem segir m.a.: „Lyf verða einungis afhent sjúklingi eða umboðsmanni hans ...“ Til að ótvírætt sé hver geti talist umboðsmaður í þessu tilliti, verður framvegis kallað eftir skriflegu umboði þess sem sækir lyf í apótek fyrir annan en sjálfan sig. Í öllum tilvikum þarf að framvísa persónuskilríkjum, hvort sem um ræðir eiganda eða umboðsmann.
Við ákvörðun þessarar kröfu um skriflegt umboð er einnig litið til persónuverndarlaga. Upplýsingar um lyfjanotkun teljast til viðkvæmra persónuupplýsinga og gæti því verið um brot á þeim að ræða séu lyf afhent aðila sem ekki hefur ótvírætt umboð til þess að fá þau afhent. Þá hefur komið fram í fjölmiðlum skýr krafa almennings um örugga afhendingu lyfja.
Umboð þarf að vera vottað
Um form umboðs til að leysa út lyf gilda almennar reglur í samræmi við stjórnvaldsfyrirmæli. Þannig skal umboðið vera skriflegt og tveir vottar staðfesta undirskrift. Nöfn og kennitölur allra aðila skulu koma fram. Hægt er að takmarka umboðið við ákveðið tímabil eða ákveðin lyf eftir þörfum.
Foreldrar og börn
Foreldrar geta án umboðs sótt lyf fyrir börn sín að 16 ára aldri. Eftir það þurfa börn að veita foreldrum umboð til að sækja lyf fyrir sig.
Framkvæmd
Sá sem sækir lyf fyrir annan en sjálfan sig skal leggja fram skriflegt umboð í apóteki. Umboðið eða afrit þess skal geymast í apótekinu. Sé þörf á áframhaldandi aðstoð við að sækja lyf fyrir þann sem umboðið veitti, getur umboðsmaðurinn óskað eftir að skjalið verði ljósritað í apótekinu, ljósritið verði varðveitt þar, en umboðsmaðurinn haldi frumritinu og geti framvísað því síðar eftir þörfum.
Fyrri óskir um takmarkanir á afhendingu lyfja sem Lyfjastofnun hefur sent til apóteka undanfarin ár, gilda nú sem umboð.
Eyðublað á vef Lyfjastofnunar
Til þægindaauka hefur Lyfjastofnun birt á vef sínum eyðublað fyrir umboð sem hægt er að prenta og fylla út.
Uppfært 5. 3. 2020: Unnið er að rafrænni framtíðarlausn í samráði við Embætti landlæknis.
Frétt uppfærð 9. mars 2020