Aftur varað við dreifingu lyfja manna á milli

Einungis þeir sem hafa heimild samkvæmt lögum mega selja og afhenda lyf. Lyfjastofnun er kunnugt um dreifingu ávísunarskyldra lyfja frá meðferðaraðila sem ekki hefur slíka heimild

Lyfjastofnun varar við notkun ávísunarskyldra lyfja frá einstaklingum sem ekki hafa heimild til að ávísa þeim eða afhenda.

Viðvörunin er sett fram með öryggi sjúklinga í fyrirrúmi, í ljósi fréttaflutnings nýverið, sem og vitneskju Lyfjastofnunar um að ávísunarskyldum lyfjum sé áfram dreift þannig. Þar á meðal frá meðferðaraðila sem enga heimild hefur til að höndla með slík lyf, og hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þannig tilvik er nú til skoðunar.

Lög segja fyrir um heimild til ávísunar lyfja

Í lyfjalögum er fjallað um hverjir hafa heimild til að ávísa lyfjum og hverjir hafa heimild til að afhenda ávísunarskyld lyf. Þeir einir sem hafa gild starfsleyfi sem læknar eða tannlæknar á Evrópska efnahagssvæðinu, eða gild starfsleyfi sem dýrlæknar, mega ávísa lyfjum. Einnig hafa hjúkrunarfræðingar og ljósmæður, sem hlotið hafa sérstakt leyfi frá embætti landlæknis, heimild til að ávísa hormónalyfjum til getnaðarvarna. Um þetta er fjallað í 48. grein lyfjalaga.

Um sölu og afhendingu lyfja

Lyfjalög segja til um að einungis sé heimilt að selja almenningi lyf á grundvelli lyfsöluleyfis sem Lyfjastofnun veitir. Einnig sætir takmörkunum hverjir mega afhenda ávísunarskyld lyf, en slíkt er aðeins heimilt gegn framvísun lyfjaávísunar í apóteki. Að auki hafa dýralæknar sem hlotið hafa leyfi Lyfjastofnunar heimild til að afhenda lyf ætluð dýrum.

Öll umsýsla lyfja lýtur afar ströngum kröfum

Lyf eru enginn venjulegur varningur og víðast hvar um heiminn gilda lög og reglugerðir til að skýra þær kröfur sem gerðar eru við framleiðslu, dreifingu, geymslu og afhendingu lyfja. Lyfjastofnanir um heim allan hafa eftirlit með því að þessum kröfum sé fylgt í hvívetna. Bregði eitthvað út af er gripið til sérstakra ráðstafana.

Skýrar reglur um rétta meðhöndlun lyfja

Þeim sem hafa heimild til að afhenda lyf er gert að fylgja skýrum reglum um geymslu þeirra, t.d. um hita- og birtustig sem tiltekið er fyrir hvert lyf. Við miðlun lyfja frá öðrum en þeim sem hafa heimild til að afhenda lyf er engan veginn tryggt að þessa hafi verið gætt. Að auki er óvíst að lyfið sem verið er að afhenda sé það sem sagt er.

Afar mikilvægt er því að fara að reglum þegar nálgast á lyf sem þörf er fyrir. Röng notkun lyfs getur skapað mikla hættu.

Síðast uppfært: 18. ágúst 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat