Ákall um samræmdar klínískar rannóknir vegna COVID-19

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hefur sent ákall til Evrópuþjóða um að hefja sem fyrst stórar slembiraðaðar samanburðarrannsóknir í baráttunni við COVID-19. Lagt er til að aðferðir verði samræmdar og þannig gætu niðurstöður rannsókna orðið úr stóru þýði og flýtt fyrir þróun meðferða við sjúkdómnum. Stakar rannsóknir með minna úrtaki myndu síður skila marktækum niðurstöðum.

Mikil áhersla er lögð á að allar þjóðir Evrópusambandsins leggi sitt af mörkum.

Enn engin lyf

Enn eru engin samþykkt lyf til sem meðferð við COVID-19 sjúkdómnum eða til varnar honum. CHMP undirstrikar brýna þörf fyrir rannsóknargögn á breiðum grunni, sem gefið gætu til kynna hvers konar lyfjameðferð myndi gagnast við sjúkdómnum, hvort heldur það væru ný lyf í þróun eða eldri lyf.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) er nú þegar í sambandi við ýmsa hagsmunaaðila sem lagt gætu lið varðandi framkvæmd slíkra samræmdra klínískra rannsóknar víðs vegar um Evrópu.

EMA mun styðja lyfjaframleiðendur

EMA mun með öllum ráðum styðja lyfjaframleiðendur hvað varðar umgjörð lyfjaþróunar, í því skyni að meðferð eða forvörn gegn COVID-19 finnist sem fyrst. EMA hvetur þá sem verið gætu að vinna að þróun bóluefnis eða lyfja til meðferðar við sjúkdómnum, til að hafa sem fyrst samband við stofnunina í gegnum netfangið [email protected] og miðla upplýsingum um stöðu mála.

EMA styður einnig við starf lyfjastofnana í Evrópu með því að miðla til þeirra nýjustu upplýsingum sem gætu orðið að liði í baráttunni við COVID-19. Sérstakt teymi innan stofnunarinnar hefur þetta hlutverk með höndum, sem og að sinna stuðningi við lyfjaþróun.

Aðgerðir vegna COVID-19 eru í hæsta forgangi hjá Lyfjastofnun Evrópu.

Frétt EMA um mikilvægi rannsókna vegna COVID-19

Síðast uppfært: 30. nóvember 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat