Árétting frá Lyfjastofnun vegna heilsíðuauglýsingar í Morgunblaðinu 13. maí 2021

Auglýsingin er ekki á vegum Lyfjastofnunar.

Lyfjastofnun vill vekja á því athygli að heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í dag, þar sem hvatt er til þess að tilkynna aukaverkanir vegna COVID-19 bóluefna, er ekki á vegum Lyfjastofnunar. Í auglýsingunni koma fram villandi upplýsingar um þekktar hugsanlegar aukaverkanir. Þá er framsetning auglýsingarinnar með þeim hætti að gefið er til kynna að auglýsingin sé á vegum yfirvalda, annað hvort Lyfjastofnunar eða almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sem hún alls ekki er. Fullkomlega óljóst er af lestri auglýsingarinnar hver stendur henni að baki.

Þekktar aukaverkanir COVID-19 bólefna

Allar upplýsingar um þekktar aukaverkanir er hægt að lesa um í samþykktum textum COVID-19 bóluefna sem eru aðgengilegir á vef Lyfjastofnunar. Fólk er sérstaklega hvatt til að tilkynna um grun um nýjar, óvæntar og alvarlegar aukaverkanir.

Mikilvægt að tilkynna grun um aukaverkun á þar til gerðu eyðublaði 

Hægt er að tilkynna grun um aukaverkun á vef Lyfjastofnunar en ekki er tekið við aukaverkanatilkynningum í gegnum síma eða tölvupóst nema brýna nauðsyn beri til. Ástæða þessa er að gæta megi ýtrustu varúðar við meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga ásamt því að tryggja gæði upplýsinga og gagna sem síðan er unnið með í kjölfar tilkynningar.

Um aukaverkanir lyfja

Aukaverkanir eru óæskileg áhrif lyfs/bóluefnis. Öll bóluefni geta valdið aukaverkunum en alvarlegar aukaverkanir eru sjaldgæfar.  Aukaverkanatilkynningar hafa mikið vægi við að kortleggja áhættu vegna lyfja þegar þau fara í almenna notkun. Við höfum tekið saman ýmsar upplýsingar fyrir almenning um aukaverkanir af bóluefnum og eru þær aðgengilegar á vef Lyfjastofnunar. 

Síðast uppfært: 13. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat