Baráttan við fíknivanda – leiðarvísir ESB

Í lok október á síðasta ári sendi Evrópusambandið frá sér skýrslu sem ætlað er að vera aðildarlöndunum leiðarvísir í baráttunni við fíkniefna- og fíknilyfjaneyslu.  Skýrslan er gefin úr af eftirlitsmiðstöð sambandsins með misnotkun lyfja, European Monitoring Centre for Drugs and Drug Addiction, EMCDDA í Lissabon. Um fyrstu heildarsamantekt miðstöðvarinnar  er að ræða. Framkvæmdastjóri EMCDDA, Alexis Goosdeel, segir að leiðarvísinn ætti að geta komið að gagni við stefnumótun í málaflokknum, jafnt sem nýtast þeim sem kljást beint við verkefnin.

Misnotkun lyfja og fíkniefna birtist sem flókinn og síbreytilegur vandi. Í leiðarvísinum er horft til margvíslegra þátta sem snúa að þessum vanda og reynt að greina þá. Fyrst og fremst er fjallað um hin ýmsu efni sem misnotuð eru, heilsufarsvanda sem af misnotkuninni leiðir, en einnig aðstæður sem geta verið ólíkar eftir því um hvaða samfélagshóp ræðir.

Ópíóíðar og önnur lyfseðilsskyld lyf
Lengst af hefur fíknivandinn snúist um efni sem teljast ólögleg, en sífellt eykst misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja. Þar valda ópíóíðar sem sprautað er í æð mestum áhyggjum. Áætlað er að 0,4% Evrópubúa 15-64 ára séu haldin alvarlegri ópíóíðafíkn eða um 1,3 milljónir manna. Viðbrögð við fíknivanda í Evrópu beindust áður fyrr fyrst og fremst að heróín-sprautufíklum vegna gríðarlegrar fjölgunar þeirra á tíunda áratugnum og jafna má við faraldur. Baráttan við þann vágest skilaði sér í þekkingu sem nýtist víða ytra í tengslum við ópíóíða-fíkn. 

Þess má geta að þeir sem eiga við ópíóíðafíkn að stríða eru fjölmennasti hópurinn í fíknimeðferð í Evrópu. Þótt hlutfallslega sé minnst notað af þessari tegund fíkniefna, er skaðinn sem þau valda meiri og afleiðingar alvarlegri. Dauðsföll vegna of stórra skammta í ríkjum ESB árið 2015 voru rúmlega 7.500, þar af um 80% vegna ópíóíða. Áætlað er að um helmingur ópíóíðfíkla fái einhvers konar meðferð, en á síðari árum hefur færst í vöxt að hjálpa þeim sem ekki hætta, til að halda neyslunni í skefjum og minnka skaða.

HIV og lifrarbólga – fylgifiskar fíknivandans
Í skýrslunni er sérstaklega fjallað um heilsufarsvanda sem óbeint tengist fíkn, svo sem HIV-smit og  lifrarbólgu. Ein megináherslan í leiðarvísi EMCDDA til Evrópuþjóða snýr einmitt að því að bregðast við lifrarbólgusmiti, þar sem sá fylgifiskur fíkniefnaneyslu er stór hluti vandans. Án sérstaks átaks gæti vandi vegna lifrarbólgu C vaxið mjög.  Þess má geta að á síðasta ári skuldbundu 194 ríki sig til að uppræta lifrarbólgu fyrir árslok 2030. Hér á landi hófst opinbert átak gegn lifrarbólgu C í ársbyrjun 2016 og hefur þegar náðst góður árangur. Frá þessu var sagt á vef RÚV í nóvember sl.   

Glíman framundan
Í leiðarvísinum segir að í starfinu framundan sé mikilvægt að horfa til breytinga vegna hnattvæðingar og stöðu alþjóðastjórnmála, sem og félags- og lýðfræðilegra þátta, svo takast megi á við vandann.  Ástæða geti t.d. verið til að hafa áhyggjur af hópum í viðkvæmri stöðu, svo sem innflytjendum og flóttamönnum.

Þá hefur tæknin þegar gert framboð fíkniefna auðveldara, og þróun í greiðslumiðlun gæti enn aukið vandann. Viðbragðsaðilar þurfi að fylgjast vel með þróuninni til að verða ekki eftirbátar þeirra sem höndla með efnin. Á hinn bóginn getur ný tækni gert að verkum að fleirum er hægt að veita meðferð. Auknir möguleikar í fjarlækningum gera hugsanlega kleyft að ná til afskekktra svæða og hópa sem síður leita sér lækninga með hefðbundnum hætti, svo sem ungs fólks í vanda.

Aðhald í fjárveitingum eftir efnahagskreppu undir lok síðasta áratugar veldur þó áhyggjum. Minni fjármunir til baráttu við fíknivanda séu jafnvel réttlættir með því að töluverður árangur hafi náðst í glímunni við hann, og því telji menn ekki ástæðu til að halda áfram af sama krafti. Slík væri hins vegar afar óskynsamlegt út frá lýðheilsusjónarmiði, segir í leiðarvísi EMCDDA, eftirlitsmiðstöð Evrópusambandsins með misnotkun lyfja.

Leiðarvísir ESB vegna fíknivanda

Síðast uppfært: 22. janúar 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat