Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stendur fyrir átaki þessa vikuna til að vekja athygli á mikilvægi bólusetninga og því hve stóran þátt þær eiga í að vernda heilsu almennings. Áhersla er lögð á að hver einstaklingur eigi rétt á þeirri vörn sem bólusetningar veita gegn smitsjúkdómum.
Í erindi Evrópudeildar stofnunarinnar kemur fram að árið 2016 hafi bólusetningar gegn mislingum verið í sögulegu lágmarki í álfunni, eitt af hverjum 15 börnum í Evrópu hafi ekki fengið viðeigandi vörn gegn sjúkdómnum. Ástæður þessa geta verið ýmsar, svo sem tímabundinn skortur á bóluefni á tilteknum svæðum, en einnig hefur andstaða gegn bólusetningum vaxið frá því um síðustu aldamót. Þessa viðhorfsbreytingu má að líkindum rekja að einhverju leyti til falskenningar breska læknisins Andrews J. Wakefield um tengsl MMR bóluefnis (gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum) og einhverfu, en sú kenning hefur verið hrakin með fjölda rannsókna.
Vaxandi andstaða gegn bólusetningum hefur leitt til þess að tilvikum alvarlegra smitsjúkóma hefur fjölgað til muna. Í Evrópusambandslöndum veiktust þannig þrefalt fleiri af mislingum árið 2017 en árið áður, eða 22.000 manns. Langflestir þeirra, eða 86%, höfðu ekki verið bólusettir. Og á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs voru mislingatilfelli í Evrópu orðin 11.000.
Sem fyrr segir leggur WHO áherslu á rétt hvers einstaklings á þeirri vörn sem bólusetningar veita gegn smitsjúkdómum. En mikilvægið snýr líka að samfélaginu öllu. Hlutfall bólusettra þarf að vera 95% eða hærra til að mynda hjarðónæmi, en það þýðir að ónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum verður nægilega algengt til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu þeirra. Í því felst ekki einungis vörn fyrir hinn bólusetta heldur einnig þá sem ekki er óhætt að bólusetja, svo sem ungbörn og fólk með veiklað ónæmiskerfi. Því er bólusetning hluti af samfélagslegri ábyrgð eins og forstjóri Lyfjastofnunar Evrópu bendir á.
Vakin er athygli á mikilvægi bólusetninga um allan heim þessa vikuna. Í Evrópu m.a. með ýmiss konar framtaki, allt frá upplýsingabásum í alfaraleið í Þýskalandi, til blakkeppni í Kirgistan.
Fjallað er um bólusetningarvikuna á vef Embættis landlæknis og þar má sömuleiðis finna margvíslegar upplýsingar um sóttvarnir og smitsjúkdóma.