Breyting á reglugerð um ávana- og fíkniefni

Öll varsla og meðferð kannabisplöntunnar og afurða sem vinna má úr henni er óheimil hér á landi. Lyfjastofnun er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu banni í sérstökum tilvikum, skv. breytingu á reglugerð um ávana- og fíkniefni sem tók gildi í dag, 22. apríl.

Undanþáguheimildin gerir innflutning, meðferð og vörslu fræja til ræktunar iðnaðarhamps mögulega, en er háð skilyrðum og takmörkunum svo tryggt sé að ekki verði fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda tetrahydrocannabinól (THC) í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,20%. Þá er rétt að vekja athygli á því að innflutningur á sáðvöru, þ.m.t. innflutningur á fræjum til iðnaðarhampsræktunar, er tilkynningarskyldur til Matvælastofnunar.

Iðnaðarhampur

Iðnaðarhampur er ein tegund kannabisplöntunnar. Vímuvaldurinn í kannabis er virka innihaldsefnið THC sem auk þess að valda vímu er ávanabindandi. Iðnaðarhampur, þ.e. þau yrki kannabisplöntunar sem ræktuð eru til iðnaðarframleiðslu, er aftur á móti frábrugðinn hefðbundnum yrkjum plöntunnar þar sem hann inniheldur lítið sem ekkert af THC.

Breyting reglugerðarinnar tímabundin

Heilbrigðisráðherra leggur áherslu á að reglugerðarbreytingin sé tímabundin ráðstöfun eins og fram kemur í frétt á vef heilbrigðisráðuneytisins. Þar segir einnig að þar sem ávana- og fíkniefnalöggjöfin falli augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins, nokkuð sem ræktun iðnaðarhamps gerir ekki, standi til að skipa starfshóp til að koma þessum málum í heppilegan farveg.

 

Nánar um undanþágu vegna iðnaðarhamps

Reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni, með síðari breytingum

Síðast uppfært: 22. apríl 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat