Könnun sem gerð var til að afla upplýsinga um lyfjanotkun háskólanema bendir til að nokkur hópur freisti þess að reyna að bæta námsárangur með aðstoð lyfja, þótt flestir láti slíkt eiga sig. Sagt hefur verið frá könnuninni hér á vefnum en hún var verkefni Jönu Rósar Reynisdóttur í fréttamennsku og vefmiðlun við Háskóla Íslands.
Framkvæmd
Könnunin var sett upp í Survey Monkey og send út í mars 2018 til rösklega 6.700 nemenda í grunnnámi við Háskóla Íslands. Auk þess var könnunin birt nemendum Háskólans á Akureyri í námskerfinu Uglu. Því má ætla að hún gæti hafa komið fyrir augu hátt í níu þúsund háskólanema. Svörin sem bárust voru 1.145 talsins, að langstærstum hluta frá nemum við HÍ. Svarendur dreifðust nokkuð jafnt á hvert hinna þriggja hefðbundnu námsára grunnnámsins, um 30% frá hverju ári. Flestir voru á aldrinum 20-25 ára, 77% konur, 22% karlar.
70% stúdenta vinna með námi
Af þeim sem svöruðu könnuninni voru 80% í fullu námi og 70% sögðust vinna með náminu. Vafalaust var vinnuframlag í hverjum mánuði mismunandi eftir svarendum, en um það var ekki spurt sérstaklega. Þorri svarenda könnunarinnar sagðist finna fyrir álagi og þrýstingi til að standa sig í námi; nokkru færri en þó meira en helmingur sagðist finna fyrir þrýstingi til að standa sig í vinnu. Fram hefur komið að ástæður fyrir því að afla sér ávísanaskyldra lyfja eftir óhefðbundnum leiðum voru að hluta til beint tengdar náminu, en einnig komu við sögu svefnvandamál og kvíði hjá þeim sem merktu við möguleikann „annað“.
Taka Concerta fyrir próf
Þau fjögur viðtöl sem tekin voru við háskólanema í tengslum við verkefnið gefa til kynna að margir stúdentar freisti þess að bregðast við álagi vegna námsins með því að taka lyf. Þannig sögðust tvö af þessum fjórum hafa notað Concert til að ná einbeitingu og geta vakað lengur fyrir próf. Í hinum tveimur viðtalanna kom fram að viðkomandi þekktu einhvern eða einhverja sem gerðu slíkt. Kona rúmlega tvítug sem gefið var dulnefnið Margrét í úrvinnslu verkefnisins, sagði lyfjanotkun af þessu tagi töluverða einnig í menntaskólum. „Það er búið að normalísera þessa notkun rosalega“.
Úrvinda þegar áhrifin dvína
Tuttugu og sjö ára karlmaður sem fékk dulnefnið Hjalti segist nota Concerta í prófundirbúningi, og eingöngu þannig. Hann taki lyfið um fimm til sex sinnum meðan á próftörn stendur því lyfin hjálpi honum að læra mikið á skömmum tíma. „Ef ég ynni jafnt og þétt yfir önnina væri ég ekki að nota Concerta en ég geri það til þess að meika önnina“. Þegar hann tekur lyfið segist hann ekki verða þreyttur fyrr en 12-14 tímum síðar, en þegar áhrif lyfsins dvína verði hann úrvinda.
Skammtímalausn við sjálfskaparvíti
Hjalti telur Concerta ekki vera töfralyf en að það hjálpi sér á síðustu metrum þegar hann er að falla á tíma með skilafrest eða þegar mjög stutt er í próf og hann sér fram á að þurfa að lesa mikið efni á stuttum tíma fyrir próf. „Maður hugsar auðvitað um að maður sé að gera sjálfum sér óleik en þetta er skammtímalausn við sjálfskaparvíti.“
Sem fyrr segir er könnunin hluti af námsverkefni í fréttamennsku og vefmiðlun við Háskóla Íslands en ekki rannsókn á vísindalegum grunni. Hún gæti þó gefið ákveðnar vísbendingar um notkun háskólanema á ávísanaskyldum lyfjum ætluðum öðrum, og viðhorf þeirra til slíks.