Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur gefið út leiðbeiningar til framleiðenda bóluefna sem hyggjast aðlaga bóluefnin að nýjum afbrigðum SARS-CoV-2 veirunnar. Í leiðbeiningunum er tilgreint hvaða gögn þurfa að fylgja til að hægt sé að samþykkja aðlagaðar útgáfur bóluefnanna.
Útgangspunktur leiðbeininganna er að aðlöguð bóluefni byggi í megindráttum á sama grunni og fyrstu útgáfur þeirra, sem hafa verið samþykktar á EES-svæðinu til varnar COVID-19. Þannig þurfi færri gögn til stuðnings samþykktar en þegar um glænýtt bóluefni er að ræða.