Lyfjastofnun Evrópu (EMA) kemur ásamt aðildarstofnunum sínum á EES-svæðinu að ráðgjöf vegna þróun bóluefna gegn COVID-19, sem og mati á gæðum, öryggi og virkni þeirra. Gripið hefur verið til sérstakra ráðstafana til að hraða sem mest öllum ferlum. Þótt unnið sé hratt gilda sömu ströngu kröfur um bóluefnin og almennt gilda þegar lyf eru metin. Á það við um virkni, öryggi og gæði lyfjanna.
Fundinum er ætlað að útskýra hlutverk EMA og annarra lyfjastofnana í faraldrinum. Jafnframt verður almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að koma skoðunum og upplýsingum á framfæri.
Hér er slóð á beina útsendingu af fundinum.
Flýtimeðferð EMA vegna COVID-19 bóluefna
Sérstakur COVID-19 starfshópur var settur á laggirnar hjá EMA, og sinna sérfræðingar í þeim hópi öflugri ráðgjöf til fyrirtækja sem vinna að þróun lyfja og bóluefna gegn sjúkdómnum, á hvaða stigi málsins sem er. Nú þegar hefur ráðgjöf verið veitt vegna fjölda lyfja sem eru eða hafa verið í þróun.
Annað flýtiúrræði sem beitt er hjá EMA vegna bóluefna gegn COVID-19 er svokallað áfangamat (e. rolling review). Það þýðir að gögn úr rannsóknum eru metin jafnóðum eftir því sem þau verða tiltæk, en alla jafna þurfa fyrirtæki að skila gögnum með niðurstöðum allra rannsókna áður en mat hefst.
Fyrirkomulag fundarins
Fundurinn verður sendur út beint á vef EMA þann 11. desember frá kl. 12:00 til 15:30 að íslenskum tíma. Þeir sem fylgjast með þurfa ekki að skrá sig á fundinn, en geta lagt orð í belg með því að senda tölvupóst. Ekki verður rætt um þau innlegg á fundinum en þau tekin til greina að fundi loknum.
Um meðferð persónuupplýsinga þeirra sem senda tölvupóst um efni fundarins
Þeir sem hafa áhuga á að taka til máls á fundinum þurfa að sækja um ekki síðar en 27. nóvember. EMA mun síðan velja gesti á fundinn úr hópi umsækjenda.