COVID-19: Lyfastofnun Evrópu heldur áfram skoðun á bóluefni AstraZeneca með tilliti til tilkynninga um myndun blóðtappa

Niðurstöðu PRAC að vænta næstkomandi fimmtudag

Lyfjayfirvöldum hafa borist nokkrar tilkynningar um myndun blóðtappa í kjölfar bólusetningar með bóluefninu COVID-19 Vaccine AstraZeneca. Í sumum tilfellunum reyndist magn blóðflagna einnig minnkað (blóðflagnafæð) sem er óvenjulegt. Mörg þúsund manns fá blóðtappa í Evrópu árlega af ýmsum ástæðum. Myndun blóðtappa eftir bólusetningu með bóluefni AstraZeneca virðist ekki meiri en gengur og gerist hjá almenningi í venjulegu árferði.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) vinnur nú með lyfjafyrirtækinu AstraZeneca, sérfræðingum í blóðsjúkdómum og öðrum heilbrigðisyfirvöldum að því að skoða málið nánar. Breska lyfjastofnunin (MHRA) kemur að því samstarfi þar sem um 11 milljón skammtar hafa verið gefnir af bóluefninu í Bretlandi.

Við matið sem nú stendur yfir er sérstaklega horft til þess hvort bóluefnið kunni að hafa stuðlað að tilkynntum tilvikum eða hvort líklegt sé að aðrar ástæður liggi að baki. Sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) hefur boðað til sérstaks fundar nk. fimmtudag, 18. mars, til að draga ályktanir út frá þeim gögnum sem borist hafa og til að leggja til aðgerðir ef matið gefur tilefni til þess. Lyfjastofnun mun miðla upplýsingum um framgang matsins.

EMA er, miðað við fyrirliggjandi gögn, enn á þeirri skoðun að gagnsemi bóluefnisins sé meiri en hugsanleg áhætta af COVID-19 sýkingu. Sóttvarnarlæknir, í samráði við Lyfjastofnun, hefur hins vegar gert þá varúðarráðstöfun að fresta notkun þess þar til öll gögn hafa verið gaumgæfilega metin.

Eins og alltaf, þá er mikilvægt að tilkynna til Lyfjastofnunar ef grunur leikur á aukaverkun í kjölfar bólusetningar, en það er hægt að gera á vef okkar.

Frétt EMA

Síðast uppfært: 15. mars 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat